06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

10. mál, afnám fátækratíundar

Framsögum. minni hl. (Jóhann Eyjólfsson):

Eg þarf ekki að segja margt núna. Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir hlaupið svo drengilega undir bagga með mér og hrakið andmæli þau, er komið hafa gegn frumv. Háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) sagði, að ekkert nýtt hefði fram komið í ræðu minni núna. Það getur vel verið að svo megi segja. En það þurfti heldur ekkert nýtt, eg var búinn að færa góð og gild rök fyrir mínu máli og taka það fram, sem með frumv. mælir, bæði við upphaf 1. umr. og í nefndarálitinu. Og háttv. andstæðingar mínir hafa ekki hrakið eitt orð af því, sem þar stendur.

Háttv. þm. (J. J.) bar það fram, að niðurjöfnunin, sem ætlast er til að verði á þeirri upphæð, sem tíundin mundi nema, mundi vekja óánægju í sveitunum, eins og niðurjöfnun yfir höfuð vekti oft. En háttv. þm. losnaði ekki við þessa óánægju, þótt hann kæmi þessu frumv. mínu fyrir kattarnef, því að niðurjöfnun yrði eftir sem áður og niðurjöfnunin á tíundargjöldunum gæti ekki aukið hana mikið, þar sem hún yrði að eins örlítill hluti af öllu því, sem jafnað er á hreppsmenn. Þetta er því ákaflega léttvæg ástæða.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að réttara hefði verið af mér, að koma með skýrslur um það, hve miklu væri slept af tekjum hreppsins með þessari breytingu, en eg áleit og álít, að slíka skýrslu þurfi ekki, því að tekjur sveitasjóðanna hvorki aukast né rýrna, hér er að eins breytt að forminu til, sama gjaldið liggur eftir sem áður á sömu mönnum.

Þá skal eg víkja nokkrum orðum að háttv. öðrum þm. Rangv. (E. P.). Mér heyrðist á honum, að honum þætti hið núverandi fyrirkomulag ekki svo sérlega ranglátt, en aftur á móti væri ekki til nein ranglátari gjaldskylda en greiðsla samkvæmt útsvarsniðurjöfnun. Mér virðist þetta óneitanlega vera nokkuð rússnesk skoðun — og harðla einkennileg jafnaðarstefna, á borð við þá, sem lýsir sér í sóknargjöldunum frá 1909. En hin sanna jafnaðarstefna er sú, að hver gjaldi eftir efnum sínum og ástæðum. En hin jafnaðarstefnan, að menn gjaldi eftir höfðatali, allir jafnt, bæði ríkir og fátækir, hefir ýtt á stað hinni virkilegu jafnaðarkenningu í heiminum, að auðnum eigi að skifta milli manna, að allir eigi sama rétt til að njóta gæða lífsins, og eftir þeirri kenningu eiga auðmennirnir að bera útgjöldin, en fátæklingarnir ekkert. En á þá jafnaðarkenningu, að fátæklingurinn beri þrisvar sinnum hærra gjald en ríki maðurinn, eins og hér hefir verið haldið fram, hélt eg satt að segja, að enginn síðaður maður mundi hlusta á nú á dögum.