09.07.1914
Neðri deild: 7. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

14. mál, vörutollur

Björn Kristjánsson :

Mér fanst háttv. þm. S.-Þing. tala svo ljóst, að eg hélt að ekki gæti spunnist langar umræður út af þessu frumvarpi. Það er svo sjálfsagt mál. Og hefði eg hugsað, að það hefði nokkra þýðingu, að hafa slíkt ákvæði í lögunum, mundi eg hafa sett þau í frumvarpið, er eg bar það fram í þinginu upphaflega.

Nefndarskipun álít eg allsóþarfa, eins og hér stendur á. Vilji menn breyta fleiru, þá má koma fram með breyt.till. við frumvarpið — en verði þær ekki betri en brtill. á seinasta þingi, þá álít eg það illa farið. Seinasta þing skildi sýnilega alls ekki þann grundvöll, sem lögin hvíla á. Eg mun síðar skýra það nánara — annarstaðar.

Annara skal eg geta þess, að þetta mál er þannig vaxið, að það er ekki meðfæri einstakra þingmanna að vera að koma fram með uppástungur um breytingar við svona lagað lagakerfi, heldur er það stjórnarinnar verk með aðstoð sérfróðra manna.

Eg vænti þess, að nefndarskipunin verði feld, þar sem hún er allsóþörf.