11.07.1914
Neðri deild: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

14. mál, vörutollur

Matthías Ólafsson:

Það mun meðfram hafa vakað fyrir síðasta þingi, er það lagði tollinn á bátana, að styðja að innlendri bátasmið. Reynslan er sú, að alstaðar þar sem mótorbátar komu fyrst, vóru þeir allir útlenzkir, hafa þeir reynst of litlir, of veikir og með lélegum saumi. En þeir, sem hér hafa verið smíðaðir hafa reynst vel, en útlendir bátar ónýtir eftir 5–6 ár. Eg legg aðaláherzluna á það, að mótorbátarnir stækki, en stóra báta er ekki hægt að fá frá útlöndum, því að skipin geta ekki flutt þá. Þá verður að smíða hér, og að því er vert að styðja, enda er miklu betur vandað til báta hér en ytra, bæði að efni og smíði. Þetta get eg borið um af eigin þekkingu. Eg hefi athugað, hve miklu tollurinn muni nema á mótorbátum hingað fluttum, og getur það gjald ekki talist mjög hátt eða tilfinnanlegt. Stærstu bátar, sem skip flytja, munu ekki fara yfir 32 fet að lengd, 8 fet að hæð og 7 fet að breidd. Nú er gjaldið reiknað út eins og báturinn væri kassi, en ekki eftir réttu teningsmáli. Slíkur bátur, sem eg nú nefndi, væri þá 32X8X7 teningsfet, eða 1792 teningsfet, og gjaldið þá 53 kr. 76 aurar, og er það gjald sannarlega ekki frágangssök fyrir þá, sem vilja fá á annað borð útlenda báta.

Sömuleiðis er það athuganda, að eigendur sjálfir geta haft eftirlit með bátum, sem smíðaðir eru hér á landi.

En það er annað atriði, sem eg vil vekja athygli á í sambandi við þetta mál, og það er, að vélarnar í bátana væri fluttar inn í landið toll laust. Því ákvæði mundi eg verða fylgjandi, því eg álít að það myndu verða geysimikinn létti fyrir sjómannastéttina, enda verða þær vélar ekki smíðaðar hér á landi.

Það er vegna öryggis sjómanna og af umhyggju fyrir sjómannastéttinni, að eg held þessu fram, sem eg hefi nú sagt. Útlendir bátar hafa hér hvervetna reynzt illa vegna smæðar. En ef bátarnir eru svo stórir, að haffærir sé á milli landa og þeim sé hingað siglt, þá eru þeir undanþegnir tolli; því er upphaf viðaukatillögunnar á þskj. 74 óþarft.