10.07.1914
Neðri deild: 8. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

19. mál, skipun prestakalla

Flutningsm. (Sigurður Gunnarsson):

Eg flyt þetta litla og meinlausa frumv. eftir ósk fríkirkjusafnaðar Fróðárhrepps í Nesþingaprestakalli.

Þó að þetta frumv. heiti og verði að heita breyting á prestakallalögunum frá 1907, þá er það þó ekki tilgangur þess að bæta við neinu nýju prestakalli, heldur aðeins að skifta einni sókn í tvær, sem sé Ólafsvíkursókn.

Til þess að upplýsa málið betur, skal eg geta þess, að forðum þegar prestakallalögin vóru samþykt, þá var Fróðárkirkja lögð niður og flutt til Ólafsvíkur og sóknin kölluð Ólafsvíkursókn. En Ólafsvík er svo í sveit komið, að hún liggur á enda prestakallsins. Sveitarmönnum þótti það því hart, að missa kirkju sína, og hafa þeir ætíð síðan verið óánægðir með þetta fyrirkomulag. Þó hefir þetta mál legið niðri, þangað til Fróðársveitarmenn fóru fram á það á safnaðarfundi fyrir nokkru, að fá að mynda nýjan söfnuð og kalla hann Brimilsvallasöfnuð. En fyrir þeirri tillögu tekst þar ekki meiri hluti atkv., þótt héraðafundur væri henni samþykkur og biskup féllist á hana. Síðan var málið látið ganga til stjórnarráðsins, en stjórnarráðið sá sér ekki fært að gera neina breytingu í þessu efni, meðan meiri hluti safnaðarins sjálfs væri henni ekki meðmæltur. — Þá sáu Fróðárhreppsmenn sér ekki aðra leið færa, en að stofna fríkirkju, og það gerðu þeir á síðastliðnu vori.

En þótt þeir gerði þetta, þá vilja þeir þó miklu heldur halda áfram að vera innan þjóðkirkjunnar, ef þeir gæti verið það sem sérstakur söfnuður. Og eg sé fyrir mitt leyti ekkert athugavert við þessa skiftingu, sem þeir fara fram á. Að vísu eru allmargir Ólafsvíkurbúar henni mótfallnir, af því að þeir sjá fram á, að hún hafi í för með sér tekjumissi fyrir kirkju þeirra. En sá missir verður hinn sami, hvort sem er, ef fríkirkjusöfnuðurinn heldur áfram, sem er alveg víst, ef þetta frumv. nær ekki fram að ganga. Og hins vegar er þess að gæta, að það væri gróði fyrir þann hluta landssjóðs, sem kallaður er prestlaunasjóður, ef þetta frv. yrði samþykt, því að ef söfnuðurinn heldur áfram að vera fríkirkjusöfnuður, þá missir Nesþingaprestakall nokkurs í af tekjum þess vegna, en verði þetta frumv. að lögum, þá kemur ekki til þess. Auk þess get eg fullyrt, að presturinn í Ólafsvík mun eigi heimta neina uppbót fyrir prestsverk sín, þótt þessi breyting verði gerð, eftir þeim yfirlýsingum, sem hann hefir gefið bæði biskupi og mér.

Hér er, eins og eg þegar hefi sagt, ekki um annað að ræða, en að bæta inn nafni á einni nýrri sókn, og hygg eg þá, að eg hafi í stuttu máli gert þá grein fyrir frv., sem þarf, og get ekki séð að þörf sé á því, að skipa nefnd í málið, en óska aðeins að það fái að ganga til 2. umr.