11.08.1914
Neðri deild: 40. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

120. mál, stjórnarskrá

Benedikt Sveinsson :

Nefndin, sem kosin var í þetta mál á öndverðu þingi, hefir fyrst í fyrradag látið nefndarálit frá sér fara. Það er hvorttveggja að þetta er aðalmálið, sem fyrir þessu þingi liggur og það málið sem mest á ríður, það mál sem þetta þing var sérstaklega kallað saman til að ganga frá, enda auðséð, að nefndinni hefir reynst, að hér var um mikið vandamál að ræða. Hún hefir starfað lengi og loks klofnað út af ágreiningi um það, hvernig skoða beri hið opna bréf konungs frá 20. okt. 1913, og það sem fram fór í ríkisráðinu þann dag. Einnig hefir orðið ágreiningur um það, hvernig afstýra beri þeirri hættu, sem sjálfstæði landsins geti verið búin af þessu tvennu.

Jafnvel þótt skoðanir væri svo skiftar í sjálfri nefndinni, að ekki gæti fengist samkomulag; þá eru þær þó enn skiftari meðal þingmanna utan nefndarinnar. Það er mjög ilt, að nú er svo áliðið þingsins, að þingmenn hafa ekki nema þrjá daga, eða að eins tvo fyrir utan þennan, til þess að ganga frá þessu máli til fullnustu í báðum þingdeildum. Það er þingmönnum ofætlun, að þeir geti gert sér þetta mál nægilega ljóst í einni svipan, sem nefndin sjálf hefir þurft svo langan tíma til að athuga og búa þeim í hendur. Eg verð að telja það afaróviðfeldið og ótilhlýðilegt að þurfa að fleygja þessu máli frá sér svo að segja umræðulaust, (en það er óhjákvæmilegt úr því að þingtíminn verður ekki lengdur), og með sífeldum afbrigðum frá þingsköpunum, sem illa sæmir að grípa til um þetta mál, sem er vandasamasta mál þjóðarinnar, og stjórnarskráin sjálf ákveður, að svo mikið skuli vandað til, að ekki verði frá því gengið nema á tveim þingum, þannig, að nýjar kosningar skuli fara fram og boðað sé til aukaþings áður það nái til fulls fram að ganga.

Síðan mál þetta var rætt hér á síðasta þingi hefir margt nýtt fram komið, einkum viðvíkjandi því atriði, hvernig uppburði sérmálanna fyrir konungi verði framvegis hagað.

Í sambandi við það verð eg fyrst að minnast stuttlega á þær deilur, Sem áður hafa verið hér á landi um þetta atriði.

Fyrir aldamótin voru menn sammála um það, að fá sérmálin tekin út úr ríkisráðinu. Á því máli vöru allir endurskoðunarmenn og sjálfur fulltrúi stjórnarinnar, Magnús Stephensen landshöfðingi, var einnig kominn á þá, skoðun á þingi 1897, að þetta væri eitt aðalatriðið í stjórnmálabaráttu vorri. Þegar Valtýskan kom til sögunnar fundu mótstöðumenn hennar henni það mest til foráttu, að þar væri ekki tekið fram að sérmálin skyldi ekki borin upp í ríkisráðinu. Þetta var aðalástæðan, sem haldið var fram til þess að hamla Valtýskunni, þó að mörg fleiri atriði kæmi að vísu til greina. En svo verða þau merkilegu hamskifti. á alþingi 1902, að þeir menn, sem mest höfðu barist á móti Valtýskunni á þessum grundvelli. Sami flokkur sem áður hafði krafist, að sérmál Íslands skyldi ekki borin upp í ríkisráðinu, hann verður þá til þess að taka það atriði hreint og beint upp, að sérmálin skuli borin fram í ríkisráðinu. Valtýingar hurfu nú og líka að því ráði, því að þeir höfðu aldrei gert mikið úr atriðinu um uppburð sérmálanna í ríkisráðinu.

Um þetta urðu mjög miklar deilur 1902 og 1903, einkum utan þings, en þó varð það úr, að »tilboði« Albertis var tekið og það samþykt. Þetta var gert með þeirri röksemdafærslu, að með upptöku þessa atriðis í stjórnarskrána væri það gert að sérmálaatriði Íslands, hvar málin væri upp borin og að því leyti væri þetta »réttaraukning«, Einnig var því haldið fram af flutningsmönnum málsins á þingi, að ef þetta kynni síðar að reynast öðruvísi, en þeir þóttust búast við, þá, væri hæg heimatökin að kippa ákvæðinu aftur burtu út stjórnarskránni, alþingi Íslendinga gæti breytt þessu þegar það vildi með konungi. Það var mikil áherzla lögð á þetta atriði og með þessum skilningi var frv. samþ. 1903. Þetta orkaði þó þegar tvímælis í landinu og þegar frá leið sannfærðust fleiri og fleiri um, að hér væri ekki tryggilega um búið. Þegar millilandanefndin hafði lokið störfum sínum 1908, var mikil áherzla lögð á það, að samkvæmt uppkastinu væri sérmálin ekki borin upp í ríkisráðinu. Varð þetta til þess, að nokkrir landvarnarmenn, að vísu ekki margir, hurfu í flokk uppkastsmanna. Þeim var það svo mikið kappsmál að fá brott numin ákvæðin um uppburð sérmálanna í ríkisráðinu, að þeim sást yfir marga stórgalla uppkastsins.

Á þinginu 1911 vóru orðin: » ríkisráði« feld úr stjórnarskránni og var það í fullu samræmi við skoðun þingmanna 1903, að þetta væri í lófa lagið, hvenær sem þinginu sýndist, en þá kom það í ljós, að mál þetta horfði alt öðruvísi við frá sjónarmiði konungs, svo að ekki varð eins auðgert og spáð hafði verið, að breyta þessu í gamla horfið. Konungur neitaði að staðfesta frv. ef orðin væri feld niður, nema jafnframt yrði staðfest lög um samband landanna.

Á þinginu 1912 var málið svæft, þrátt fyrir loforð þingmanna um hið gagnstæða og þau endaskifti höfð, að ný samtök vóru gerð um sambandsmálið, þó að því hefði verið lofað fastlega að láta það þá liggja í þagnargildi.

Þingið 1913 tók stj.skrármálið upp aftur og ætlaði nú að sneiða hjá því, að þetta atriði gæti hamlað því, að gagnlegar umbætur á stjskr. kæmist fram, og fór þann milliveg að víkja orðunum þannig við, að í stað orðanna »fyrir konungi í ríkisráði« standi »þar sem konungur ákveður«. Það var auðvitað, að þessi breyting var þó gerð til þess að auka en ekki minka réttindi landsins, og ekki gerð til þess heldur, að alþingi fleygði frá sér valdi því, er það hafði yfir þessu máli. Þingið treysti því, að Stjórn Íslands, eða konungur og ráðherra, réði því, hvar sérmálin yrði borin upp. Þinginu gat alls ekki komið til hugar, að það yrði fastákveðið svo að segja um aldur og æfi, hvar sérmál Íslands yrði borin upp, heldur að það væri á valdi ráðherra Íslands og konungs að ákveða það og breyta því. Það er og auðséð, að ráðherra sá, sem þá fór með völdin, hefir og skilið þetta svo, þar sem hann segir svo á fundi í ríkisráðinu 20. okt. 1913:

»Samkvæmt þeim fyrirmælum — er konungi í hendur lagið að gera með undirskrift Íslandsráðherra þá skipan, sem hann vill ákveða —. — — alla þá stund er vilji konungs er um þetta óbreyttur. «

En svo kemur forsætisráðherra Dana með þau skilyrði, að konungur staðfesti stjórnarskrána með þeim fyrirmælum, »að ákveðið sé í eitt skifti fyrir öll, að ráðherra Íslands beri upp lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir í ríkisráðinu eins og að undanförnu, nema því að eins að gefin verði út lög að sameiginlegu ráði ríkisþingsins og alþingis, um ríkisréttarsamband Danmerkur og Íslands, þar sem ný skipan verði á gerð«.

Að þessu gekk ráðherra Íslands orðalaust og staðfesti það með undirskrift sinni undir konungsbréfið. Eg get ekki betur séð, en að hann hafi gengið hér langtum lengra en þingið ætlaðist til og sat það sízt á honum, sem áður hafði haldið því fram, að ríkisráðsákvæðið væri »sérmál« vort, en nú er það tekið undan þeim málum, sem alþingi hefir áhrif á. Konungur hefir gefið vilyrði um að staðfesta stjórnarskrárfrumv. með því skilyrði, að kjósendum væri gert það kunnugt, með hverjum hætti málin yrði borin upp og umboðsmaður alþingis hefir gengið að því, að þetta »sérmálaatriði«, sem hann hafði sjálfur kallað, uppburður sérmálanna fyrir konungi, skuli nú fara fram í ríkisráðinu, ekki um stundarsakir, heldur þangað til danskt löggjafarvald hefir fallist á lög um samband milli landanna, sem breyti þessu.

Konungur hefir sagt íslenzku þjóðinni það berlega og orðskviðalaust fyrir kosningar, að hverju væri að ganga. Þess vegna er þýðingarlaust að koma á eftir og segja, að menn hafi ekki vitað hvað verið var að gera. Eg legg enga áherzlu það, hvort þessi skilyrði standi á úrskurðinum eða ekki. Það er nóg, ef konungur breytir ekki vilja sínum í þessu efni. Þessi grautarlegi fyrirvari, sem hér er fram borinn, og verður til umræðu síðar, er því algerlega þýðingarlaus. Eg hygg, að þeir háttv. þm. sem samþykkja nú þennan fyrirvara í því trausti, að konungur breyti vilja sínum, ætli sér of mikið. Konungur og aðrir geta ekki litið á málið nema á tvennan hátt: annaðhvort, að alþingi og Íslendingar hafi gengið að stjórnarskránni með þeim hætti, er konungur ætlast til, eða ekki, og ef fyrirvarinn verður að nokkru hafður, — þá neitar konungur stjórnarskránni staðfestingar.

Ef ráðherra heldur því til streitu, að konungur breyti vilja sínum, þá býst eg við, að málinu sé þar með siglt í brot og ráðherra verði að leggja niður embætti, þar sem hann sé kominn í bága við vilja konungs. Það tel eg stórum verr farið heldur en heima setið og hlýt því að telja réttara að fresta málinu að sinni, einkum þar sem stórhættulegir tímar eru nú fyrir höndum. Oss Íslendingum er betra að eiga nú í engum brösum við útlent vald að nauðsynjalausu, allra sízt þegar lítið er í aðra hönd. Á þessum stórháskatímum er best að fara varlega og eiga ekki undir vafasömum afdrifum. Vér höfum líka dæmið fyrir oss frá Dönum. Þeir hafa nú haft grundvallarlagabreytingu með höndum, en horfið frá henni að sinni vegna þeirra tíðinda, sem eru að gerast. Í þetta sinn tel eg rétt að hafa dæmi þeirra til hliðsjónar og eftirbreytni.