11.08.1914
Neðri deild: 40. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

120. mál, stjórnarskrá

Framsögum. meiri hl:

(Einar Arnórsson): Eg stend ekki upp til þess að fara út í þau atriði, sem háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) ræddi mest. Eg bjóst við, að þær umræður mundu geymdar þangað til þingsályktunartillagan um fyrirvarann kæmi til einnar umræðu. Að eins vil eg mótmæla þeim orðum hv. þm. er hann sagði, að þingmönnum væri það ofætlun að átta sig á þessu máli á svo skömmum tíma. Það er óhugsandi að svo sé, vegna þess, sem eg geri ráð fyrir að háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) sé kunnugt, að þingmenn voru einmitt kosnir á þing í vor til þess að athuga þetta mál, og eg býst við því, að flestir þeirra hafi lýst skoðunum sínum á því fyrir kjósendum áður en til þings kom. Og þótt svo hefði ekki verið, þá held eg, að staðhæfing háttv. þm. N.-Þing. sé ekki rétt, því að allir flokkarnir hafa nú í sumar alt af verið að þinga um þetta mál öðru hverju, svo að menn ætti að geta verið búnir að mynda sér nokkurn veginn fasta skoðun á því. Þó að málið hafi verið svona lengi í nefnd, þá leiðir ekki af því, að háttv. þm. hafi ekki átt kost á að kynna sér störf nefndarinnar og vita, hvernig málinu liði.

Enn fremur fann háttv. þm. að því, hversu lengi málið hefði verið í nefnd. En það stafaði af óviðráðanlegum atvikum, sem nefndarmönnum verður ekki gefin sök á, nefnilega utanför ráðherra. Það var svo um samið, að ekkert skyldi afráðið um málið fyrr en hann kæmi aftur. Eg þarf ekki að útlista þetta frekar. Eftir að ráðherra kom aftur hefir nefndin starfað af kappi, og eg hygg ekki, að henni verði með réttu núið því um nasir, að hún hafi legið óþarflega lengi á málinu eftir þann tíma.