13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

41. mál, sjódómar og réttarfar í sjómálum

Flutningsm. (Sveinn Björnsson):

Tilgangur þessa frumvarps er sá, að bæta úr tveim göllum, sem eru á sjódómalögunum frá síðasta þingi, og menn hafa rekið sig á.

Fyrst er farið fram á það, að felt sé úr 1. gr. laganna ákvæðið um, að þeir, sem sjódóm sitja, skuli hafa sérþekkingu á siglingamálefnum. Sá skilningur hefir verið í þetta ákvæði lagður, að allir, sem til sjódóms eru kjörnir, yrði að hafa sérþekking á siglingamálefnum. En nú segir í sjódómslögunum, 2. gr.:

»Þá eina má tilnefna og skipa sjódómsmenn, sem eru 30 ára að aldri, hafa óflekkað mannorð, eru fjár síns ráðandi, búsettir innan sjódómsþinghárinnar, og hafa sérstaklega þekking á siglingum, útgerð, vélastörfum,

vörum eða vátryggingarmálefnum«

Tilgangur 2. gr. er sá, að veita dómaranum aðstoð sérfróðra manna í þeim málefnum, sem þar eru talin. En eftir 1. gr. laganna þurfa sjódómendur að hafa sérþekking á siglingamálefnum. Nú getur hæglega svo farið, að sumstaðar, jafnvel hér í Reykjavík, verði ekki unt að fá tvo menn með sérþekking á siglingamálefnum og þar að auki á öllum hinum málefnunum, sem talin eru í 2. gr. En nægilegt er, að sjódómandi hafi sérþekking á einhverju þessara atriða, því er hann á um að dæma. Fyrir því er lagt til að fella burt þetta skilyrði, sem 1. gr. setur, sérþekking á siglingamálefnum, hjá öllum, sem til sjódóma eru kjörnir.

Hin breyt.till. við frv. fer fram á það, að kostnaður við sjódóma verði greiddur úr landssjóði. Í 5. gr. sjódómslaganna er hinum útnefndu sjódómendum ætlað 4 kr. dagkaup, en ekkert um það sagt, hver kaupið eigi að greiða. Menn hefir mjög greint á um þetta atriði. Sumir segja, að málshöfðandi eigi að greiða kostnaðinn; aðrir, að báðir málsaðilar eigi að greiða hann, og enn aðrir, að um kostnaðinn skuli fara líkt og um kostnað við landamerkjamál. Í áður gildandi lögum heyrðu öll sjódómsmál undir venjulega dómstóla, og þurfti ekkert að borga dómaranum fyrir dómarastörf. Hér væri því framið hróplegt ranglæti ofan í áður gildandi lög, ef nú ætti einstaklingar að bera kostnaðinn við sjódómana, auk þess sem brotið væri á móti þeirri grundvallarreglu í voru réttarfari, að allir eigi ókeypis réttarvernd. Þessi kostnaður getur oft numið miklu, ef dómurinn atendur lengi, og orðið fátæklingum erfiður. Tökum t. d. mál milli háseta og útgerðarmanns. Þar gæti þetta ákvæði beint leitt til þess, að fátæklingurinn gæti ekki náð rétti sínum, vegna þess að hann brysti nægt fé fram að leggja til að kosta sjódóminn.

Eg skal ekki fara fleiri orðum um frumv. nú. Vona eg, að því verði vísað til 2. umr. án nefndar.