16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

41. mál, sjódómar og réttarfar í sjómálum

Matthías Ólafsson:

Ekki gat eg sannfærst af þessari ræðu háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.), enda var hún æði mikið utan við efnið. Hann segir, að ekki sé hægt að fá hæfa menn í sjódóminn eftir lögunum, eins og þau nú eru. Það er vitaskuld auðveldara að fá menn, sem ekkert vit hafa á þessum málum, heldur en þá sem vit hafa á þeim. Samt sem áður er mér óhætt að fullyrða, að hér er völ á mönnum, sem vit hafa á sjómannafræði og vélfræði, og þar á meðal margir, sem verið hafa í förum um langan tíma á milli landa, og bera því gott skynbragð á alla reglu á skipum, bæði hvað snertir vöruflutninga og annað þess háttar. Eg get ekki skilið í öðru, en að betur fari á því, að slíkir menn væri skipaðir í dóminn heldur en að þeir væri útilokaðir, og að skipa mætti hvaða menn sem væri, t. d. embættismenn eða landbændur.