27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Framsögum. meiri hl. (Einar Arnórsson) :

Eg stend eiginlega ekki upp til þess að andmæla hv. frams.m. minni hl. (Þ. B.). Hann sagði, að eftirlaunamálið í heild sinni væri á dagskrá með þjóðinni, og að almenningur vildi að það væri til lykta leiti. Þetta er rétt. En það var meining meiri hlutans, að meðan eftirlaun væri ekki alment afnumin, þá gæti það ekki annað talist en óviðfeldið, að taka þetta eina embætti út úr að þessu leyti.

Eftir því, sem eg skildi háttv. minni hluta og framsögumann hans, þá er hann ekki á móti 2. og 3. brtill. meiri hl. Eg vil þess vegna skjóta því til hæstv. forseta, að þó að 1. breyt.till. verði feld, þá verði 2. brtill. borin upp engu að síður, því að hún getur staðist þó að hinar falli. Meiri hlutanum virtist nauðsynlegt, eða í öllu falli varkárara, að gera það að skýru lagaákvæði, sem í 2. og 3. brtill. felst, með því að hann leit svo á, að það gæti orkað tvímælis, ef að eins væri drepið á það í nefndarálitinu. Vona eg, að háttv. minni hluti hafi ekkert á móti því, að 2. og 3. brtill. verði bornar upp, þó að 1. brtill. falli.

Eg get ekki verið á sama máli og hv. minni hluti, að þessi breyting, sem vér leggjum til að verði gerð á 1. gr. frv., verði til þess að valda landinu verulegs útgjaldaauka. Reynslan sem fengin er, hefir bent í þá átt, að ef menn fara úr öðrum launuðum embættum til þess að verða ráðherrar, þá taka þeir við þeim embættum aftur jafnskjótt sem þeir sleppa ráðherrastöðunni. Og afleiðingin af því, ef 2. og 3. brtill. verða samþyktar, verður sú, að slíkir menn taka að sjálfsögðu við embættum sínum aftur. En á meðan eftirlaunarétturinn helzt, finst mér það hart, að taka ráðherrann einan út úr og láta hann engin eftirlaun geta fengið, hvernig sem á stendur, nema með sérstökum lögum frá þinginu.

Það eru hugsanleg tilfelli, að ráðherrann slasist, veikist eða verði fyrir aldurssakir óhæfur til að taka við nokkru öðru embætti. Þá er hart að gefa honum ekki kost á að hafa tvö ár til þess að reyna að skapa sér einhverja aðra atvinnu. Það getur komið fyrir, að sá sem verður ráðherra, sleppi starfi við verzlun eða annað þess háttar starf, sem ekki er kallað að vera í almennings þágu. Starfinn getur þurft að liggja niðri, meðan maðurinn hefir ráðherraembættið á hendi, og þá er ekki nema eðlilegt, að hann þurfi vissan tíma til þess að vinna upp aftur þær tekjur af starfsemi sinni, sem hann hafði áður haft. Mér þykir þess vegna nokkuð hart, að svifta þennan eina embættismann, ráðherrann, eftirlaunarétti að öllu leyti, á meðan aðrir embættismenn hafa hann óskertan. Eftir brtill. meiri hl., eins og hún er orðuð, falla eftirlaun ráðherra burtu jafnskjótt sem almenn eftirlaun verða afnumin, því að þar er vísað til almennra eftirlaunalaga. Þegar þau eru numin úr gildi, falla að sjálfsögðu ráðherraeftirlaunin líka úr sögunni.

Annars skal eg geta þess, að eg, fyrir mitt leyti, leit svo á, að engum í nefndinni væri það neitt kappsmál, hvort frumvarpið yrði samþykt óbreytt eða með þessum breytingum, sem við stingum upp á. Meiri hlutinn taldi það einungis sanngjarnara, að svifta ekki þenna eina embættismann eftirlaunarétti að fullu og öllu, fyrr en þá að sá réttur yrði tekinn af öðrum embættismönnum landsins. Eg játa reyndar, að það er ekki fullkomin líking á milli ráðherrans og annara embættismanna. Aðrir embættismenn takast embættin á hendur upp á lífstíð sem kallað er, en ráðherrann hefir embættið oftast skamma stund á hendi í þingræðislöndum eins og hér hjá oss. Embættistíð ráðherrana er því mjög takmörkuð, og fer það eftir því, hversu lengi hann getur verið í samræmi við meiri hluta þingsins. Br till. vor fer þess vegna fram á að eftirlaun ráðherrans verði takmörkuð, í samanburði við önnur embættismanna eftirlaun. Ef eins hefði að öllu verið ástatt um ráðherraembættið og önnur embætti, þá hefði eg ekki séð neina ástæðu til að gera neina undantekningu í þessu efni. Það er að eins fyrir það, að embættistíð hans er jafnaðarlegast svo stutt og skifti því svo tíð, að eg get fallist á undantekninguna.

Eg ímynda mér, satt að segja, að það muni aldrei miklu í framkvæmdinni, hvort frumvarpið verður samþykt eins og það var upphaflega lagt fyrir deildina., eða till. meiri hlutans verða teknar til greina. Það eru að eins þessi tvö ár, sem ráðherrann getur haft eftirlaunin, en í framkvæmdinni yrði það eflaust tíðast, að hann tæki við öðru embætti eða sýslan, jafnskjótt sem hann léti af ráðherraembættinu. Vér vildum að eina ekki útiloka, að ráðherrann gæti fengið eftirlaun í þessi tvö ár, ef þær kringumstæður væri fyrir hendi, að hann gæti ekki tekið við öðru embætti.