27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Magnús Kristjánsson :

Eg get verið mjög stuttorður, meðfram vegna þess, að eg gerði grein fyrir skoðun minni á þessu máli við 1. umræðu. Eg stend aðallega upp til þess að lýsa yfir því, að eg geri ráð fyrir að brtill. mín á þskj. 82, verði ekki borin upp til atkvæða, úr því að það hefir orðið að samkomulagi í meiri hl. nefndarinnar, að taka hana til greina og bera hana fram í þeirri mynd sem hún er í á þgskj. 184.

Mér skildist svo meðan nefndin vann saman, að hv. minni hl. sem nú er, væri eiginlega á sama máli og meiri hl., að því er snertir till. hans er hér liggja fyrir. Eg get heldur ekki séð, að ágreiningurinn sé verulegur.

Við nánari athugun, hygg eg að allir hv. þingmenn hljóti að sjá, að fjárhagslega skoðað munar það aldrei miklu, þó að tillögur meiri hlutans verði samþyktar.

Flutningsmenn frv. á þskj. 69 virðast leggja mikið upp úr fundargerðum þingmálafunda, sem haldnir hafa verið víðsvegar um landið, og þar sem kröfur í þessa átt hafa látið nokkuð mikið á sér bera. Eg verð að álíta, að af öllu megi of mikið gera og eins því að fara bókstaflega eftir þingmálafundaályktunum. Mér er nær að halda, að kjósendur yfirleitt hafi ekki tækifæri til að rannsaka það út í æsar, hvaða afleiðingar það gæti haft, ef ýmsar tillögur, sem þeir samþykkja á þingmálafundum, væri við. stöðulaust gerðar að lögum. Þingmenn verða að kosta kapps um að lesa málin niður í kjölinn, og þá vill oft fara Svo, að ómögulegt reynist að binda sig beinlínis við gerðir þingmálafundanna. Svo er það um þetta mál sem ýms önnur. Eg get ekki skilið í öðru, en að allur fjöldi kjósenda, að öllu yfirveguðu, mundi sætta sig við það, þó að tillögur meiri hl. á þskj. 184 yrði samþyktar.

Það sem meiri hl. gekk aðallega til að koma fram með þessar till. var það, að hann áleit að það gæti jafnvel orðið til sparnaðar í mörgum kringumstæðum, hjá því að slá því föstu á pappírnum, að afnema ráðherraeftirlaunin að fullu og öllu. Því að það er vitanlegt, að oft getur staðið svo á, að þinginu verði það ógerningur að beita því harðræði, að veita ekki fráfarandi ráðherra einhverja þóknun með sérstökum lögum, annaðhvort af þeirri ástæðu, að hann fatlist á einhvern hátt meðan hann gegnir embættinu, eða þá af einhverjum öðrum knýjandi ástæðum. Eins og allir vita, hlýtur ráðherrann oft að takast hættuleg ferðalög á hendur, og er þá vel hugsanlegt, að eitthvað það komi fyrir, að aðstandendur hans verði illa á vegi staddir, svo að þingið verði að sjálfsögðu að taka eitthvert tillit til þess.

Þegar þess er gætt, að háttv. minni hluti heldur því fram, sem sjálfsögðu og eðlilegu, að ef maður sem verður ráðherra hefir áður haft embætti á hendi, sem eftirlaunaréttur fylgir, þá haldi hann þeim rétti óskertum þegar hann sleppir ráðherrastöðunni, þá get eg ekki séð, að það muni nokkru fjárhagslega, þó að tillögur meiri hlutans verði samþyktar.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um málið. Það er ekki meira sem milli skilur en svo, að eg býst við, að allir sætti sig við það sem ofan á verður.