27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Sigurður Sigurðsson:

Það má gera ráð fyrir því hér eftir eins og hingað til, að í ráðherrastöðuna veljist embættismenn, sem hafa rétt til eftirlauna hvort sem er. Í raun og veru er því l. breyt.till. meiri hlutans ekki annað en viðbót við eftirlaun þessara manna. (Einar Arnórsson: Það er misskilningur). Eg lít svo á, að eftir 1. gr. ætti sá embættismaður, sem verður ráðherra, rétt til eftirlauna, miðaðra við laun ráðherra.

Að öðru leyti hefi eg ekkert að athuga við 2. brtill. meiri hlutana. Eg skal bæta því við, að eg álít þessa breytingu dálítið til bóta, því að svo mætti ætla eftir núgildandi lögum, að ráðherra gæti reiknað sér ráðherraeftirlaun, enda þótt hann tæki við öðru embætti eftir að hann hefir látið af ráðherraembættinu. Við skulum segja, að sýslumaður verði ráðherra og taki svo við sínu fyrra embætti aftur, þegar hann hættir að vera ráðherra, þá á hann samkvæmt breyt.till. að eins rétt til þeirra eftirlauna einna, sem sýslumannsembættinu fylgja. Það hefir verið sagt, að það væri dálítið einstakt að taka þennan eina embættismann út úr hópnum og láta hann ekki hafa eftirlaun. En samkvæmt því, sem eg hefi nú sagt, þá á sá maður, sem fer úr ráðherraembættinu eftirlaunarétt eftir hið fyrra embætti sitt, og það ætti honum að nægja, því að varla hefir hann fjárhagslegan skaða af því að verða ráðherra.

Eg mun ekki greiða atkvæði með þessum breyt till. meiri hlutans, þótt það gæti komið fyrir einhvern tíma, að maður, sem ekki hefir eftirlaunarétt, yrði ráðherra.

Þá hefir það verið sagt, að breyt.till. meiri hlutans gæti orðið til sparnaðar. Því fer fjarri að svo sé. Ef þessi br.till. um tveggja ára eftirlaun nær fram að ganga, og maður, sem lætur af ráðherraembættinu, hefir ekki fengið embætti þegar tvö ár eru liðin, þá sýnist mér ekki vera útilokað að hann fari fram á það við þingið, að þessi frestur verði lengdur um tvö ár enn, og svo koll af kolli.

Eg verð að halda mér við tillögur minni hlutans og mun greiða atkvæði með frumv. á þskj. 69, en á móti br.till. meiri hluta nefndarinnar, um tveggja ára eftirlaunin.