27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Jóhann Eyjólfsson:

Mér heyrist flestir þeir, sem tekið hafa til máls, hallast fremur að till. minni hl. heldur en meiri hl. Mér er það ekkert kappsmál, hvor leiðin verður farin, en hitt er mér töluvert kappsmál, að þetta mál komist á einhvern hátt í framkvæmd, svo að eftirlaun ráðherra verði annaðhvort afnumin með öllu eða takmörkuð. Eg fylgdi meiri hl. nefndarinnar, af því að mér fanst það vera sanngjarnt gagnvart ráðherranum, að hann væri ekki strax settur út á, klakann, þegar hann legði niður embættið, hvort heldur væri af því að hann hefði mist heilsuna, eða að hann hefði ekki getað fengið neitt viðunanlegt starf, þá fanst mér sanngjarnt, að hann hefði þessi eftirlaun í tvö ár. En það, sem einna helzt kom mér til að fylgja meiri hlutanum, var það, að eg hélt að málinu yrði í þessu formi fremur sigurs auðið út úr þinginu. Þótt eg hefði fult eins vel kosið hitt, að eftirlaun ráðherra yrði afnumin með öllu, þá vildi eg ekki tefla málinu í hættu, heldur ganga svo sanngjarnlega frá því, að líkindi væri til að það yrði afgreitt, ekki einungis frá þessari deild, heldur og frá háttv. efri deild. Eg held, að menn sjái við nánari íhugun, að hér er ekki um mikla fúlgu að ræða, og vér verðum að hafa það hugfast, hvað er bezt og hyggilegast til framkvæmda.