27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Framsögum. meiri hl. (Einar Arnórsson):

Eg þarf ekki að tala langt mál í þetta skifti, því að háttv. þm. Mýr. (J. Eyj.) hefir tekið fram sumt það, er eg vildi sagt hafa.

Háttv. samþingism. minn (S. S.) skyldi brt. vora svo, að þessi eftirlaun væri viðbót við eftirlaun þau, sem maður hefði rétt til áður en hann tæki við ráðherraembættinu. Eg veit ekki hvernig hægt er að skilja þetta svo, og eg býst við, að það yrði engin vandræði fyrir framkvæmdarvaldið að ráða fram úr því. Ekki er annað en að fara eftir 2. gr. laga, 4. marz 1904, um eftirlaun.

Út af því sem þeir háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. samþingism. minn (S. S.) tóku fram, að það væri altaf hægt fyrir þingið að hækka lögmælt eftirlaun, skal eg játa að það er rétt. Vér höfum nú lög um almenn eftirlaun og það koma á hverju þingi fram beiðnir um hækkun á þeim.

Hitt er þó auðsætt, að þingið mun fremur kynoka sér við að hækka eftirlaun, sem áður eru lögmælt með ákveðinni upphæð, en að veita manni, sem engin eftirlaun hefir, eftirlaun með sérstökum lögum.

Eg skal ekki fara langt út í ríkisréttar»teoriur« háttv. þm. Dal. (B. J.) Það, sem hann sagði, er að sumu leyti rétt, en að sumu leyti alveg rangt. Það er auðvitað, að það sem þingið gerir viðvíkjandi ákveðnu atriði verður að skoðast sem réttur, eða hlýtur að ráða um það einstaka tilfelli, en þarf alls ekki að vera bindandi í öðrum samböndum. Þingið getur t. d. lýst vantrausti á ráðherra. Því verður hann að sleppa völdum. En þar með er alls eigi úrskurðað, hvort hann hafi orðið sekur um nokkurt afbrot í embætti sínu. Tilviljunarmeirihluti getur hafa rekið hann frá, ef til vill algerlega ranglega. Það gegnir þar alveg sama máli og um hinn æðsta dómstól. Úrskurðir hans eru bindandi í ákveðnu máli, en þurfa alls ekki að vera það í öðrum málum. Það er dálítill 18. aldar bragur á þessum skoðunum háttv. þm. Dal. (B. J.) Þær líkjast skoðunum Blackstone's, sem sagði, að »parlamentið« væri almáttugt, en það getur þó ekki gert karl úr konu.

Háttv. þm. er mjög leikinn í því, sem kallað er »skólastik« — hann dregur rökrétta ályktun um eitthvert einatakt atriði, en færir svo þessa ályktun sína yfir á önnur atriði, sem ekki koma málinu minstu vitund við. Það er eins konar »Axiom«, sem hægt er að fylgja í einu atriði, en ómögulegt að færa yfir á öll atriði. Annars er það rangt hjá háttv. þm. Dal. (B. J ), að þingið sé það vald, sem alt verði að beygja sig fyrir. Eg vil benda honum á dómstólana, að þeir geta dæmt um það, hvort gerðir alþingis sé lögum samkvæmar — og liggi fyrir úrskurður þeirra um, að svo sé ekki, þá eru menn ekki skyldir að hlýða lagaboði því, er þeir hafa t. d. dæmt brot á stjórnarskránni. Það vill svo vel til, að í Danmörku hefir það komið fyrir nýlega, að hæstiréttur hefir úrskurðað, að danska þingið hafi ekki haft rétt til þess að setja ákveðin lög. (Bjarni Jónsson : En þingið getur afnumið hæstarétt). Það er mikið rétt, en meðan svo er ekki, þá verður það að hlíta úrskurðum hæstaréttar. Háttv. þm. Dal. (B. J.) gæti ef til vill komið og drepið mig, en þangað til hann hefir gert það, get eg sagt um hann það, sem mér sýnist.