16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

55. mál, vörutollur

Flutningsm. (Björn Kristjánsson):

Eg er ekki vanur að ónáða hv. deild með frumv. um breytingar á eldri lögum, og allra sízt nýjum lögum. En það ber alveg knýjandi nauðsyn til þess, að nema úr gildi breytingu síðasta þings á vörutollslögunum. Orsökin til þessa er sú, að sú breyting var aldrei bygð á sama grundvelli og vörutollslögin sjálf, og það verður til þess, að bæði tollheimta af vörunum og endurskoðun tollreikninganna lendir í standandi vandræðum. Og þó að þessir embættismenn vildi nú sætta sig við það, að innheimtan yrði ekki til hlítar rétt, heldur að eins svona hér um bil, þá er það auðsætt, að ekki má við svo búið standa, heldur verður að breyta lögunum. Grundvöllur vörutollslaganna er nú sá, að tollurinn skuli vera innheimtur samkvæmt nafni vörunnar á farmskrá og eftir þunga. Þess vegna verða lögin að tilgreina nöfn varanna, eins og vant er að rita þau á skrárnar, því að annars lendir tollheimta og endurskoðun í vandræðum. Þessa hefir ekki verið gætt í þessum lögum frá síðasta þingi, og því fór sem fór. Skal eg nú leyfa mér að skýra málið með nokkrum dæmum.

Í 1. gr. laga frá 22. okt. 1913, er talað um það, hvaða vörur eigi að komast inn í 1. lið 1. greinar vörutollslaganna. Þar er meðal annars nefnt »smjörsalt«. Nú er á öðrum stað í lögunum lagður sérstakur tollur á salt alment. Tollheimtan getur ómögulega greint það sundur í hverju einstöku tilfelli, hverskonar salt um sé að ræða, því að aldrei er »smjörsalt« nefnt á farmskrá, heldur einungis salt. Þetta getur því ekki staðið svo í lögunum.

Í öðru lagi er talað um «alls konar Skepnufóður«. — Í fyrri lögunum var alls konar kornvörufóður fært undir þennan lið. Þetta ákvæði snertir því ekki kornfóðurtegundir, heldur aðrar fóðurtegundir, og hljóta það að vera olíufóðurkökur, melasse og melassemjöl, kjötfóðurmjöl og þ. h. Það verður því nauðsynlegt að taka upp í lagatextann nöfn á þeim fóðurtegundum, sem búist er við að til greina komi, og ef nýjar bætast við, þá að bæta þeim inn með nýjum lögum jafnóðum.

Þá er í 3. lagi segldúkur. Það átti að ívilna sjómönnum með því að hafa lægri toll á honum, en annari álnavöru. Það kemur nú oft fyrir, að hann er sendur sérstakur, en líka stundum hafður með öðru. Ef hann er sendur sérstakur, þá er nú flutningagjaldið fyrst og fremst nálega helmingi lægra en ella; og ef tollurinn ætti einnig að vera mun lægri, þá fer freistingin að verða allmikil til þess, að búa um aðrar vörur með honum, svo sem stumpasirz, léreft, molskinn o. fl. Þetta er því beinlínis til þess að opna mönnum leið til tollsvika. — Enn er seglgarn, sem ýmist er kallað því nafni, af því að það var upphaflega notað við seglasaum, eða þá netjagarn. Það er einnig stundum sent með öðru, en stundum sérstakt, og er því ekki ábyggilegt að tolla það sérstaklega. Og strigi. — Hvað er strigi? Löggjafinn mun hér sérstaklega hafa átt við umbúðastriga utan um fisk, en eins og þetta er nefnt, þá getur það alveg eins átt við striga, sem notaður er í millifóður, eða striga sem notaður er í vestisboðunga eða í hnakkdýnur o. m. fl., sem alt eru mismunandi strigategundir og sem má búa um með allskonar vefnaðarvöru annari, og þá er sjálfsagt að tolla strigann með henni.

»Ullarsekkir« eru nefndir sérstakir í lögunum. Það nafn sést víst ekki í farmskrám, heldur eru ullarsekkir nefndir að eins sekkir. Enda er ekki ástæða til þess, þó að pokar sé sendir til Íslands, að hafa krónutoll á einni tegund þeirra, en 25 aura toll á annarri. Sama er að segja um sléttuvoðir (pressenningar). Þær eru ekki nefndar svo á farmskrám, það skyldi þá vera þegar þær eru tjargaðar eða málaðar. En þetta verður alt að heyra til sama flokksins, ef vel á að vera. Eins er um mottur. Þær eru fleiri til en fiskmottur, og verða ekki aðgreindar.

»Vélaáburður« er aldrei nefndur svo á farmskrám, heldur tegundirnar, »Grænolía«, »Cylinderolia«, eða þvílíkt. Þetta kemur í tunnum og lögin verða því að tilgreina rétta nafnið.

Það getur staðist, að kaðlar og fiskilínur sé í sérstökum flokki, því að venjulega koma þessar vörur í sérstökum umbúðum. En um »fiskinet« er oft búið um með öðru, og geta þau því ekki tollast sérstaklega. »Ljáblöð« ekki heldur, því að þau koma iðulega með annari járnvöru. Einkennilegt er að hafa járnkarla og sleggjur sérstök, því að slíkt flyzt með annari járnvöru. Og hver er líka munurinn á hamri og sleggju? Hver á þyngdin að vera til þess að hluturinn heiti sleggja? Um það segja lögin ekki. sama er um steðja. Þeir munu vera sendir sér, ef þeir eru mjög stórir, en þá nota fáir, þeir smærri eru sendir með járnvörum. Akkerisfestar er eitt. Þar hefði mátt standa skipskeðjur, en í akkerisfestar má nota vírstrengi og kaðla o. s. frv.

Þá eru járnbitar til »húsagerðar« sérstakir. Hvernig á lögreglustjóri að geta vitað um, hvort þeir eru notaðir til »húsagerðar«? Á farmskrá stendur aðeins »járnbitar«, og þeir eru líka notaðir til brúargerðar, í bryggjur o. fl. Eða »spengur, rær og gaddar«! Svo eru þessar tegundir eigi nefndar á farmskrá, svo að örðugt verður að gera við þessu. Gaddar gæti t. d. vel heyrt undir saum. Þessari ónákvæmni allri þarf að breyta, því að lögin eiga að vera svo, að tollheimtumenn geti innheimt eftir þeim. Nöfn varanna verða að haldast í hendur í lögunum og á farmakrám, og þetta vona eg að háttv. þm. skiljist, því að eftir 3. gr. laganna frá 1912 á að fara eftir nöfnum varanna á skránni og vigt þeirra.

Eg sé, að rétt hefði verið að hafa hér eina gr. um það, að lögin gangi í gildi 1. jan. 1915, og má enn bæta því við. Fleira mætti benda á, t. d. reglu í 9. gr. um endurgreiðslu á tolli, þegar vörur eru endursendar til útlanda. Það getur staðið svo á, að það sé óhentugt og kostnaðarsamt, ef umbúðir eru endursendar, og mætti kippa þessu í lag og gera það einfaldara. Eg skýt þessu fram til athugunar fyrir nefnd þá, sem væntanlega fær að fjalla um málið.

Eg vona að frv. verði vel tekið og það fái greiðan framgang, og leyfi eg mér að stinga upp á 5 manna nefnd að umr. lokinni.