16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

55. mál, vörutollur

Flutningsm. (Björn Kristjánsson):

Háttv. þm. Ak. (M., Kr.) gaf það í skyn, að eg þyldi ekki að breytingar væri gerðar á vörutollslögunum, af því að eg hefði samið þau og flutt upphaflega. Eg get fullvissað háttv. þm. um það, að þetta frumv. stendur ekki í minsta máta í sambandi við þessa orsök. Annars hélt eg, að eg hefði sýnt ljóslega fram á það, af hverju eg vil láta breyta lögunum, svo ljóst, að hver þingmaður ætti að skilja. Að eg tek ekki illa upp þótt komið sé með breytingar við frumv. mín, sýnir það bezt, að eg tek upp í þetta frumv. margar þær breytingar, sem síðasta þing gerði á lögunum.

Eg get ekki séð, að það sýni nokkra lítilsvirðingu frá minni hálfu á störfum síðasta þings, þótt eg komi með breytingartillögur við lög, sem þá vóru samin. Ef svo væri, að það sýndi lítilsvirðingu, þá væri nokkuð margir samsekir mér. Að eg kem með þessa breytingu nú er blátt áfram af því, að nefndin, sem fjallaði um þetta mál í fyrra, áttaði sig ekki á því, hvað væri grundvöllur vörutollslaganna frá 1912.

Háttv. þm. (M. Kr.) sagði, að nefndin í fyrra hefði starfað í samráði við tollheimtumanninn hér í Reykjavík. Eg vissi það, en eg vissi líka, að hann hafði ekki fremur en nefndin áttað sig á, hvaða grundvelli lögin vóru bygð á.

Háttv. þingm. (M. Kr.) sagði, að eg mætti ekki gera ofmikið úr grundvellinum, sem lögin væri bygð á. Vill ekki háttv. þingm. segja mér eftir hverju á að fara við lagabreytingu, ef það er ekki grundvöllurinn fyrir frumlögunum, sem taka verður tillit til, ef þau annars eru látin vera í gildi ? Meðan lögin eru í gildi, verður að halda sér við þann grundvöll, sem lögin eru bygð á, en vilji alþingi falla frá honum, er ekki annað fyrir hendi en að fella lögin úr gildi.

Háttv. þingm. (M. Kr.) sagði, að ekki væri hægt að fyrirskrifa útlendum kaupmönnum, hvað þeir kallaði þær vörur, sem þeir setti á farmskrár. Þetta er alveg rétt. En það er líka það, sem eg hefi alt af haldið fram, að vér yrðum að sníða vörunöfnin í lögunum eftir því, sem á farmskránum stæði. Ef það er ekki gert, er ómögulegt að fara eftir þessum lögum.

Háttv. þingm. (M. Kr.) sagði, að hann teldi sjálfsagt, að tollheimtumennirnir væri svo vel að sér, að þeir geti vitað um hvað alt, sem stæði á farmskránum, væri. Þetta er alveg ómögulegt fyrir nokkurn mann, nema með því að láta tollskoðun fara fram, og til þess vantar fjölda af launuðum tollgæzlumönnum. Eg hygg, að á meðan ekki er veitt fé til tollskoðunar, sé ekki annað vænna, en að gera lögin þannig úr garði, að tollheimtan verði sem hægust og ábyggilegust án vörurannsóknar.

Það getur verið, að þessi háttv. deild vilji láta þessa breytingu bíða til næsta þings, með það fyrir augum, að þá er tími sá, sem lögin eru í gildi, útrunninn. Eg hygg, að heppilegra muni að laga galla laganna nú strax, því að óhægari mun tollheimtan næsta ár, ef það er ekki gert.

Eg skal svo ekki orðlengja þetta meir, en vona að háttv. deild sýni málinu þann sóma, að skipa nefnd í það.