16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

55. mál, vörutollur

Bjarni Jónsson:

Mér finst þetta eiginlega dálítið skrítið frumv. Breytingin, sem það vill gera á gildandi lögum, er ekki önnur en nú, að gera lítilsháttar orðabreytingar frá því sem gert var í fyrra. Og þó er það ekki fært undir þá málvenju, sem höfð er meðal verzlunarmanna, því að þeir sem senda bögglana frá útlöndum, skrifa víst ekki hreina íslenzku, þeir rita víst fremur aðrar tungur.

Að gera eins mikið og háttv. flutningsm. (B. gr.) gerir úr þessum orðagrundvelli, held eg að sé þarfleysa. Eg hygg, að nöfn varanna sé ekkert grundvallaratriði í þessu máli, því að kaupmenn geta látið þá, sem vöruna senda, setja það nafn á böggulinn, sem þeir vilja, þannig, að varan falli undir vissan toll. Eg finn hvergi í þessu frumv. þá breytingu, sem nefndin í fyrra setti inn í lögin, að bátar skuli vera tollaðir. Eg tel það miklar skemdir á lögunum, ef á að hætta að tolla báta, miklu betra að menn smíði þá sjálfir hér heima.

Sá eini grundvöllur, sem tolllög eiga að byggjast á er, að miða tollinn við verð vörunnar. Og lög í þá átt hljóta að taka við af þessum, en að fara að lappa upp á þessi skrípalög tel eg þarfleysu, ekki sízt þegar það er vitanlegt, að þau eiga nú að eins 1 lífsár eftir.

Eg skal engar getur að því leiða, hví háttv. flutningsm. (B. Kr.) er svo mikið áhugamál að breyta þessum lögum nú á þessu þingi, en eg veit hitt, að mikið er leggjandi upp úr starfi nefndarinnar í fyrra. Hún starfaði í samráði við Vigfús Einarsson lögfræðing, þann sem hefir innheimtuna á tollum hér í Reykjavík á hendi, allar breytingar hennar vóru gerðar í samráði við hann, og eg þori að fullyrða, að háttv. flutningsm. hefir aldrei heyrt hann kvarta um, að breytt hafi verið til hins verra.

Eg er á sama máli og háttv. þm. Ak. (M. Kr.), að mér er sama þótt nefnd sé sett í málið, en tel það gagnslaust, því frumv. eins og lögin í heild sinni bera í sér sjálf sitt dauðamein.