29.07.1914
Neðri deild: 23. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Umboðsm. ráðherra (Klemens Jónsson):

Eg verð sjálfur að ráða því, hvernig eg haga orðum mínum og hvernig eg fer með umboð mitt, og mun eg ekki sækja ráð um það, hvorki til háttv. þm. Dal. (B. J.) né til annarra. Eg verð að fylgja minni skoðun og sannfæringu og eg ímynda mér, að háttv. þm. Dal. vilji hafa leyfi til að halda fram sinni skoðun, eins og hann álítur sannast og réttast. Sömu heimild vildi eg hafa.

Annars hefi eg ekkert á móti því, að þessu máli verði frestað þangað til ráðherra kemur heim, og eg tel því réttast að forseti taki það út af dagskrá. En eg verð að mótmæla því, að nokkur þingm. hafi leyfi til þess að koma með getsakir í minn garð um það, af hvaða hvötum eg tali.