28.07.1914
Neðri deild: 23. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Einar Arnórsson :

Þessar umræður, sem hér hafa orðið, koma mér nokkuð óvænt. Eg get reyndar vel skilið, að háttv. 2. þingm. Rang. (E. P.) haldi fram þessari skoðun á 24. gr. stj.skrárinnar, því að hann er ólögfróður maður. En hitt get eg síður skilið, að hv. umboðsm. ráðherra (B. J.) eða nokkur annar lögfróður maður skuli geta haldið þessari skoðun fram. Það finst mér vera hrein og bein fjarstæða, og skoða það svo, að hann hafi ekki kynt sér málið nægilega.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) benti á, að jafnvel með þingsályktunum hefði oft verið heimilaðar fjárgreiðslur. En það er ekki nóg með það. Stjórnin hefir oft goldið fé í fullkomnu heimildarleysi af þingsins hendi og án allrar lagaheimildar. (Klemens Jónsson: Það eru til fjáraukalög). Það er ekki til neins, að halda þeirri fjarstæðu fram, að ályktun stjórnarinnar um að greiða fé úr landssjóð sé lög. Stundum hefir líka verið næsta lítil ástæða til þess fyrir stjórnina að taka sér heimild til að greiða fé utan fjárlaga eða fjáraukalaga, eins og t. d. til fánanefndarinnar sælu.

Eg skal leyfa mér að benda á skoðun stjórnlagakennarans hérna við háskólann. Hana geta menn séð hér í þessari bók (Íslenzkri stjórnlagafræði) á bls. 228, 229 og 230. Það vita allir, að engum manni hefir hingað til dottið hug að skilja 24. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem nú hefir verið haldið fram af hv. 2. þm. Rang. (E. P.) og hæstv. umboðsmanni ráðherra (Kl. J.). Greinin hefir vitanlega verið skilin svo, og verður að skiljast svo, að stjórnin megi ekki greiða ólögmælt gjöld. Þar á móti er stjórninni bæði rétt og skylt að greiða lögmælt gjöld, þótt eigi sé fjárlaga- eða fjáraukalagaheimild til. Það er auðsætt, að stjórnin hlýtur að greiða t. d. laun embættismanna og önnur lögmælt gjöld, þótt gleymst hafi að taka þau upp í fjárlögin. Það er annars undarlegt, að nokkrum manni skuli geta dottið það í hug, að það sé brot á stjórnarskránni að heimila stjórninni að greiða fé úr landssjóði, þótt ekki standi það í fjárlögum. En það er ekki nema eðlilegt, að menn sé ekki undir það búnir að tala um svona allskostar óvænta vitleysu.