28.07.1914
Neðri deild: 23. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Skúli Thoroddsen :

Mig hefir furðað mjög á því, hve afar-viðkvæmir sumir menn eru nú alt í einu orðnir, að því er það snertir, að ekkert sé greitt úr landssjóðnum, nema í fylsta samræmi sé við sem allra formlegustu heimild til greiðslunnar. Mig hefir furðað á þessu, af því að ummælin komu frá mönnum, sem í stjórn landsins eru og hafa verið, og vitað er um að leyft hafa sér þrásinnis að greiða fé úr landssjóðnum þó að ekki hafi heimildin þá önnur verið en þingsályktun, eða fjárupphæðin jafnvel verið greidd upp á »væntanlega fjáraukalagaheimild«.

Sé nú þessi umvöndunarsemi vottur þess, að í »endurnýjung lífdaganna« skuli nú framvegis gengið, þá er auðvitað gott þess að bíða, en því miður hefi eg litla trú á því að svo sé, er eg hugsa til landsreikninganna síðustu árin, sem fremur virðast benda á alt annað, — virðast benda á, að stjórnin sé jafnvel þvert á móti að hirða æ minna og minna um það, að útborgunarheimildin sé lögleg, enda höfum við endurskoðunarmennirnir hvað eftir annað orðið að benda á, hvað slík braut geti þó verið hættuleg.

En að því er snertir frumvarpið, sem hér ræðir um, fæ eg nú ekki séð annað, en að það nægi að vísa til 24. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæða gildandi fjárlaga. Það er að vísu rétt, að 24. gr. stjórnarskrárinnar heimtar, að öll gjöld, sem greidd eru úr landssjóði, skuli heimiluð í fjárlögunum eða aukafjárlögum, en fjárlögin sjálf taka nú einmitt af skarið að því er ágreininginn sem hér um ræðir snertir, þar sem þau skírskota og einatt til laga, sem þingið samþykkir, þ. e. segja sjálfsagt að bæta og gjöldunum, sem af þeim leiða, við útgjöldin, sem talin eru í fjárlaga-greinunum á undan, og ákvæðin í 22. gr. fjárlaganna verða því að sjálfsögðu að skiljast á þá leið, að þau heimili og greiðslu alls þess, sem af lögum kann að leiða, sem þingið samþykkir á fjárhagstímabilinu 1914–1915.

Dettur nokkrum í hug, að þingið, sem nú stendur, geti t. d. ekki samþykt lög um að byggja hús handa háskólanum, eða að veita einhverjum manni heiðurslaun, eða því líkt? Það dettur engum í hug. Slíkt hafa öll aukaþing leyft sér, og mér dylst því eigi, að það, sem hér ræður umvöndunarseminni sé því í raun og veru það eitt, að hér sé verið að hefna fyrir fjáraukalagafrumv., sem féll hér í deildinni um daginn.