04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Bjarni Jónsson:

Eg get ekki leitt hjá mér orð háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.), þar sem hann var að tala um að hann væri hæstv. forseta ekki þakklátur fyrir úrskurðinn. (Forseti: Úrskurðurinn verður ekki ræddur). Eg veit það, eg ætla ekki að gera það, en hitt vil eg segja, að þeir sem hafa verið að samþykkja heimildarlög um miljónir, eiga ekki að láta sér slíkt um munn fara. Þeim væri sæmst að nefna aldrei þessa firn frá því á dögunum. Og í öðru lagi eiga þeir, sem alt af eru að gaspra um það, að hafa þingtímann sem styztan, sízt að vera nú að leggja til að skipa nefnd undir þinglokin til þess að þæfa málin, og þó allra sízt þeir, sem vóru í fjáraukalaganefndinni, sem drýgði sjálfsmorð með tillögum sínum. Það fer ekki rétt vel á því, að þessir menn sé að stagast á sparnaði með öðru munnvikinu, en heimila drátt og máltöf með hinu.