04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

82. mál, listaverk Einars Jónssonar

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Eg vil minna menn á orð skáldsins:

»Við eigum sumar innra fyrir andann,

þá ytra herðir frost og kyngir snjór«.

Andlegar listir, hvort sem þær eru framleiddar með litum, myndaðar úr leir, hvort sem það er skáldskapur eða söngvar eða myndir, skapa okkur þetta sumar. Það er sannast sagt um listamennina, að þeirra ríki er ekki af þessum heimi. Þeirra ríki fylgir skortur og vöntun á þessa heims gæðum. En þetta ríki er eilíft og stöðugt, því að því verður ekki kollvarpað með þeim vopnum, sem menn nota venjulega í ófriði, hugmyndirnar verða ekki brendar eða skotnar eða drepnar á eitri. Aftur á móti er það af þessum heimi, að geymsluhús þarf til þess að varðveita þessar mótuðu hugmyndir Einars Jónssonar, til þess að geymdir verði þeir kostir, sem eru ekki enn búnir að fá fulla viðurkenningu, en fá hana áreiðanlega síðar. Einar Jónsson er ekki svo langt kominn ennþá, að hann hafi fengið þá heimaviðurkenningu, sem listamaðurinn þarf til þess að verða ríkur, þó að hann hafi fengið loflegt umtal fyrir verk sín, bæði í Norðurálfu og Vesturheimi. Hann er svo fátækur, að hann hefir ekki efni á að kosta geymsluna á listaverkum sínum. Hann hefir verið svo heppinn undanfarið, að fá að geyma þau ókeypis í járnbrautarskemmu í Kaupmannahöfn. En nú verða tekin hús á honum um nýár, því að þá á að rífa skemmuna. Þá kemst hann í þau vandræði, að hann verður að mölva listaverk sín, vegna þess, að hann hefir ekki efni á að leigja hús undir þau verði ekki einhvernveginn hlaupið undir bagga með honum. Og þó það sé rétt sem í vísunni segir:

»Aldrei þó, það lán var lént,

lubbar dóm er sátu,

eitrað, höggvið, hengt né brent,

hugmyndirnar gátu«,

þá má má þó mölva gifsið, sem hugsjónirnar eru mótaðar í. Alt starfsþrek Einars Jónssonar hefir gengið í þessi verk hans. Það er því ekki að eins mikill skaði fyrir hann — því að fyrir hann er það sama sem að missa lífið heldur fyrir alt föðurland hans, ef þessar myndir glatast. Þær eru einkennilegar, hugmyndadjarfar og munu vafalaust síðar vinna þá viðurkenningu, sem þær hafa ekki fengið enn. Þess vegna er þessi heimildartillaga borin fram. Það er ekki verið að fara fram á það, þótt svo kynni að sýnast og væri auðvitað ekkert á móti — að flytja hingað heim annars manns eign og geyma hana á landsins kostnað. Listaverkin verða ekki hans eign lengur en landið óskar, því að hann hefir boðið því þau að gjöf. Vilji landið ekki þiggja þau, þá býst eg við, að því fari líkt og segir í sögunni um Tarquinius og Sibillu. Sibilla kom til Tarquiniusar og bauð honum til kaups 6 bækur og kvað á verðið 1 miljón sestertia. Hann vildi ekki kaupa þær því verði. Þá tók hún eina bókina og brendi hana og spurði hvort hann vildi nú kaupa þær, er eftir væri. Hann spurði um verðið. Hún kvað það vera hið sama og áður. Hann vildi ekki ganga að kaupunum. Þá brendi hún aðra til og fór alt á sömu leiðina — hún heimtaði altaf jafn hátt verð. Þannig gekk það, þangað til hún hafði brent 3 bækur. Tarquiniusi þótti þetta harla kynlegt og keypti þær sem eftir vóru fyrir sama verð og allar bækurnar áttu upprunalega að kosta. Og hann iðraðist þess ekki, því að þetta vóru dýrmætar spádómsbækur, er mikil áhrif höfðu á sögu Rómverja. Eins hygg eg að oss gæti farið að vér síðarmeir, þegar Einar Jónsson er orðinn frægur maður, vildum fegnir gefa margfalt meira fyrir þessi listaverk, sem ekki yrði mölvuð, en vér nú vildum gefa fyrir þau öll. Þó er dæmið halt að því leyti, að vér eigum að fá þessar myndir ókeypis núna. En rétt er það að hinu leytinu, að ekki þarf nema dálitla hepni til, að Einar verði frægur maður og vér þá vildum fegnir gefa 40 þús. kr. fyrir það, sem oss býðst nú ókeypis, ef vér önnuðumst flutning og geymslu á því, sem aldrei kostar meira en 4000 kr. Það gefur að skilja, að það er ekki með ljúfu geði, að hann býðst til þessa. Hann fær ekkert í aðra hönd fyrir það, annað en það, að von hans um að fá viðurkenningu í framtíðinni er ekki með öllu drepin. Og það er ekki ofmikið þótt vér drepum ekki þá von hans, að framtíðin líti hann réttari augum en samtíðin. Það hefir reynst svo oft, einkum um þá menn, sem eru einkennilegir að einhverju leyti. Eg skil ekki í öðru, en að þetta hljóti að vera hvers manns vilji. Þó að nú sé ófriðartímar, álít eg samt gott að gefa þessi lög. Og það gæti kanske létt á samvizku sumra þm. að vel getur svo farið, að skotið verði á Khöfn, og einhver kúlan hitti þessi verk. Þá þyrfti alþingi Íslendinga ekki að naga sig í handarbökin fyrir þennan ósparnað.

Eg gleymdi að geta þess áðan, því til sönnunar, að eg fer hér með rétt mál, því að eg hefi hér með höndum símskeyti frá manninum sjálfum, sem hljóðar svo :

»Gef verkin ef heimflutt landskostnað og geymd. Einar».

Eg gæti sagt ýmislegt fleira til þess að vekja tilfinningar þeirra manna, sem kunna að meta lífsstarf, unnið fyrir hugsjónirnar. Hinna strengi held eg að þýði ekki að reyna að hræra — þeir eru svo hljóðlitlir. Annars vil eg óska þess, að málið gangi tafarlaust fram, eða það verði drepið strax — svo að menn verði ekki lengi að murka lífið úr seinustu vonum mannsins.