12.08.1914
Neðri deild: 42. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

82. mál, listaverk Einars Jónssonar

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Eg vildi að eins leyfa mér að bæta lítilsháttar við þær upplýsingar um þetta mál, sem eg hefi áður gefið deildinni. Margir þingmenn hafa látið í ljós, sérstaklega utan funda, að þeir óttuðust að það mundi verða dýrt að geyma myndirnar. Nú hefi eg sannfrétt, að Landsbankinn á lítið hús hér í bænum, og í því húsi sé hægt að fá myndirnar geymdar fyrir litla, sanngjarna húsaleigu. Vona eg að mönnum vaxi ekki í augum kosnaðurinn, er þeir heyra þetta. (Guðm. Hannesson : Hvað verður húsaleigan mikil?) Eg hefi ekki samið við Landsbankann um leigu á húsinu, en eg býst við að háttv. þm. (G. H.) geti farið nærri um leiguna, þegar eg segi honum, að húsið er lítið og leigan sanngjörn.