12.08.1914
Neðri deild: 42. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

82. mál, listaverk Einars Jónssonar

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Að eins örstutt athugasemd út af þessari skemtilegu og viturlegu ræðu hv. 1. þm. Húnv. (G. H.). Eins og menn muna, þá sló eg því fram um daginn, að ef menn gæti látið sér nægja að geyma myndirnar þannig, að þeim væri rétt að eins forðað frá skemdum, þá væri hægt að slá upp skúr fyrir þær, sem ekki kostaði meira en svo sem 300 kr. Nú gat eg hugsað mér, að ýmsir vildi heldur geyma myndirnar á þeim stað, þar sem hægt væri að sýna þær og jafnvel selja aðgang að þeim. Þess vegna vildi eg upplýsa deildina um, að slíkt húsnæði væri fáanlegt við sanngjörnu verði.

Nú vildi eg biðja háttv. 1. þingm. Húnv. (G. H.) að reikna það út á milli þinga, hvort ódýrara verður að slá upp 300 kr. bárujárnsskúr utan um myndirnar, svo lítinn og þannig úr garði gerðan, að ekki væri unt að sýna þær, eða að leigja fyrir þær lítið húsnæði fyrir gjald, þar sem hægt væri að sýna þær fyrir borgun.