12.08.1914
Neðri deild: 42. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

82. mál, listaverk Einars Jónssonar

Sveinn Björnsson:

Eg verð að segja, að það kemur flatt upp á mig, að umræður skuli hafa orðið um þetta mál nú við eina umræðu, þar sem það var afgreitt af deildinni um daginn, og er nú komið aftur frá Ed. þannig breytt, að takmörkuð hefir verið sú fjárveiting, sem um getur verið að ræða. Nd. afgreiddi málið þannig, að stjórninni var heimilað að verja því fé, sem þyrfti til þess að flytja heim listaverkin, en Ed. hafði það að athuga við málið, að engin fjárupphæð væri ákveðin, og breytti frv. í samræmi við það. Eftir öllum reglum ætti það því að vera hættuminna að samþykkja frumvarpið eins og það er nú, heldur en eins og það var um daginn þegar deildin afgreiddi það.

En þó að eg undrist allar þær umr., sem nú hafa fram farið um málið, þá þykir mér ræða háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) stórfurðulegust. Mér er ekki unt að fylgjast með hans hugsanagangi. Hann endurtekur það, ekki tvisvar eða þrisvar, heldur að minsta kosti tíu sinnum, að Einar Jónason sé viðurkendur listamaður, en segir þó í sömu andránni um verk hans, að bezt sé að mölva alt bölvað draslið niður þar sem það er. Þetta var þráðurinn í ræðu hans. Ýmislegt fleira sagði sami háttv. þm. (E. J.) sem mér var torskilið. Hann talaði um að kaupa verkin fyrir 4000 kr. flutningsgjald, og hélt að það mundi ekki borga sig, þar sem ekki mundi verða hægt að selja þau aftur. (Einar Jónsson: Það sagði eg aldrei). Jú, hann viðhafði þessi orð. (Einar Jónsson: Eg sagði að ekki væri hægt að selja myndirnar, þar sem þær eru). Þetta er undarleg hugsun. Eg veit ekki, að hér sé verið að tala um nein kaup á listaverkunum, heldur hafa menn hugsað sér að taka á móti þeim í Kaupmannahöfn sem gjöf, gegn því að flytja þau á landsins kostnað hingað heim og geyma þau, til þess að koma í veg fyrir að listamaðurinn þurfi að bera verkin sín út og brjóta þau niður, eins og viðbúið er að hann þurfi að gera, þegar hann í haust missir húsnæðið, sem hann hefir haft fyrir þau. Meiningin er ekki önnur en sú, að reyna að afstýra þessu. Eg veit ekki til að neinum manni hafi dottið það í hug, að hægt væri að geyma myndirnar landinu að kostnaðarlausu, og eg skil ekki, að það hafi nokkra þýðingu, að vera að stæla um það, þó að einhver háttv. þm. hafi sagt, að hægt væri að kúlda upp ódýrum skúr utan um þær. Aðalatriðið er það, að myndirnar verði geymdar svo að þær skemmist ekki. Og enn síður er ástæða til að vera að þrátta um þetta, þar sem fjárupphæðin, sem í þessu skyni má verja, hefir nú verið takmörkuð. Ef þingið á sínum tíma sér sér fært að byggja landinu hús, til þess að geyma í þessi listaverk og önnur, þá er það ekki nema gott og blessað að hugsa til þess, að augu manna opnist fyrir því, að vert geti verið að varðveita annað en það, sem látið er í munninn í augnablikinu.

Eg endurtek það, að eg skil ekki hugsanagang háttv. 1. þm. Rang. (E. J.). Hann heldur því fram, að landinu geti ekki orðið nein vegsemd að því að eignast þessi listaverk, en þó marglýsir hann því yfir, að fyrir sitt leyti viðurkenni hann list Einars Jónssonar, og hafi haft mikla ánægju af því að skoða þetta eina listaverk eftir hann, sem hann hefir átt kost á að sjá.

Hér í Reykjavík hafa verið til sölu myndir af verkum Einars Jónasonar, og útlendingar hafa mikið sókst eftir þeim. Þeir hafa spurt um, hvar vér geymdum þessi verk, og þegar þeim hefir verið sagt, að þau væri geymd í pakkhúsi suður í Kaupmannahöfn, þá hafa þeir orðið meira en lítið hissa. Eg hygg, að það sé ekki með öllu vanzalaust fyrir oss að þurfa að segja útlendingum anneins og þetta. En hins vegar mundi það ekki verða oss til skaða ef vér gætum gefið útlendingum kost á að sjá hér heima íslenzka list, ekki sízt, ef ekki væri upp á ómerkilegra að bjóða en listaverk Einars Jónssonar. Og vel get eg ímyndað mér, að þegar verk hans eru komin hér á einn stað, þar sem hægt verður að skoða þau, þá verði einhver til þess að kaupa af honum meira eða minna, og þá þyrfti hann ekki að þola annað eina og honum hefir verið boðið hér í dag með matarræðu hv. 1. þm. Rang. (E. J.), sem talaði um að gefa honum að borða í gustukaskyni.