03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

113. mál, kosningar til Alþingis

Benedikt Sveinsson:

Eg skal ekki neita því, að í frumvarpi þessu felast ýmsar breytingar, sem nauðsynlegar eru sakir breytinga þeirra, er leiða af nýju stjórnarskránni, ef hún kemst fram. En þar að auki virðist mér frumvarpið fela í sér ýmsar breytingar, sem eru ónauðsynlegar og ekki til bóta. Á eg þar einkum við ákvæðin um breyting á kjördæmaskipun landsins. Það var ekki rétt hermt hjá hæstv. ráðherra (H H.), að síðasta þing hafi ætlast til þess, að breytingar yrði gerðar á kjördæmaskiftingunni. Þvert á móti var stjórnarskrárfrumvarpið einmitt þannig úr garði gert, að ekki þyrfti að breyta neitt núverandi kjördæmaskipan. Þess vegna var tala alþjóðkjörinna þingmanna höfð hin sama, sem tala hinna konungkjörnu þingmanna. Menn vildu með því girða fyrir, að nokkuð yrði grautað í skipan kjördæmanna. Eg verð því að líta svo á, að hæstv. ráðherra hafi með þessu frumvarpi gengið framar en rétt er og áreiðanlega lengra en síðasta þing ætlaðist til.

Hæstvirtum ráðherra þótti það óviðurkvæmilegt, samfara þeirri rýmkun, sem verður á kosningarrétti, að láta tvímenningskjördæmi haldast. Misréttið yrði nú enn meira en áður, meðan meira en helming greiddra atkvæða þurfti til þess að kosning væri gild, — ekki »meiri hluta kjósenda« eins og hann kvað að orði —, en nú væri nóg að fá flest atkvæði. Eg sé ekki, að í þessu felist neitt misrétti fram yfir það, sem áður var. Síðan lögleitt var að kosning fari fram í hverjum hreppi er einmitt mikil trygging fengin fyrir því, að fleiri atkvæði þurfi til þess að komast að, heldur en meðan að eins var kosið á einum stað í kjördæminu. Kjósendum er gert miklu hægra með að nota rétt sinn. Í annan stað er þess að gæta, að síðan nokkurn veginn ákveðin flokkaskifting komst á í landinu, þá hefir frambjóðendum fækkað, því að varla eru fleiri í kjöri af hverjum flokk, en tala þingfulltrúa kjördæmisins. Áður kom það oft fyrir; að heilir hópar byði sig fram, sem alls ekkert fylgi höfðu, því voru engar skorður settar, og þá gat viljað svo til, að maður kæmist að, sem nauðalítið fylgi hafði, ef kjörfundur var illa sóttur, en maðurinn hafði t. d. eitthvert fylgi rétt kringum kjörstaðinn. Nú er óhugsandi, að nokkur komist að þingmensku nema hann hafi allmikið fylgi í kjördæminu, enda sýnir reynslan, að þingmenn eru oftast kosnir með langtum fleiri atkvæðum nú, heldur en meðan gömlu lögin giltu.

Hvort kjördæmin eru einmennings eða tvímenningskjördæmi, sé eg ekki að nokkru skifti í þessu efni, enda er það víst, að tvímenningskjördæmin sjálf vilja ekki — eða að minsta kosti fæst af þeim, — láta kubba sig í tvent, og hví skyldi þingið gera það að nauðaynjalausu að þeim nauðugum?

Mín skoðun er sú, að sú kjördæmaskifting, sem nú er, sé mjög eðlileg; hún er í samræmi við sýsluskifting landsins; en þeim ráða staðhættir og atburðir í sögu landsina. Sýslurnar eru heild út af fyrir sig, hver með sína sameiginlegu hagsmuni og áhugamál í viðskiftum, samvinnu- og samgöngumálum og atvinnuvegum. Út af þessari eðlilegu skiftingu er hér brugðið, svo að saman er slengt sveitum, sem ekkert hafa saman að sælda, eins og t. d. Snæfellsnessýslu og Mýrasýslu. Þetta er hvorki að óskum þingsins né héraðanna. Mönnum má vera kunnugt um það, að margir þingmálafundir nú hafa lagt á móti breytingum á, kjördæmaskipun landsins, en ekki mætti þó minna vera, en að héruðin sjálf væri að spurð, áður en slíkar breytingar eru gerðar.

Eg tel það ófæru að binda kjördæmaskipun hér á landi við höfðatölu; með þeim hætti þyrfti sífelt að breyta lögunum, eftir því sem fjölgar eða fækkar í hverju kjördæmi.

Eg skal líka benda á það, að í mörgum gömlum menningarlöndum eru kjördæmin næsta misjöfn að kjósendatölu. Hæstvirtum ráðherra (H. H.) miklaðist það í augum, að hér væri sjö atkvæði um þingmann í einu kjördæmi móti einu atkvæði í öðru, þar sem munurinn væri mestur og taldi þetta gífurlegt misrétti, en eg get upplýst það, að munurinn er langt um meiri í ýmsum öðrum löndum; t. d. í Englandi er stærsta sveitakjördæmið — »Romford Division of Essex« — með um 58 þús. kjósendum, en hið fámennasta — »Rutland« — með rúm 4 þús. — Í Wales hefir stærsta Sveitakjördæmið 26500 kjósendur, en hið minsta liðug 6 þúsund. Í Skotlandi eru full 26 þúsund kjósenda í fjölmennasta sveitakjördæminu, en tæp 3300 í því fámennasta. Þetta eru alt einmenningskjördæmi.

Áþekkur er munurinn á stærð kjördæmanna í borgunum. Fjölmennasta borgarkjördæmið á Englandi, Wandsworth, hefir 40.000 kjósendur, en hið fámennasta, Durham, 2700. Í borgunum á Skotlandi og Wales er munur viðlíka mikill milli þeirra fjölmennustu og fámennustu.

Öll þessi kjördæmi kjósa til sama þingsins, enska parlamentisins, sem er merkasta löggjafarþing í heimi. Þar eru meira en tuttugu sinnum fleiri kjósendur í fjölmennasta einmenningskjördæminu en í hinu fámennasta, án þess talin sé með fámennustu kjördæmin á Írlandi, því að þá mundi munurinn verða ennþá meiri. Írar hafa mun fleiri þingmenn í brezka þinginu en þeim ber móts við mannfjölda annara landshluta »Stóra Bretlands«.

Meira að segja innan sömu borgarinnar eru kjördæmin mjög mismunandi að fólksfjölda. Jafnvel í Lundúnaborg er þessu svo farið, að stærsta kjördæmið, er sendir fulltrúa í borgarstjórnina, hefir nær 49 þúsund kjósendur, en hið minsta að eins 3800 kjósendur. Og þó sýnist það óneitanlega miklu hægra að takmarka kjördæmin við höfðatöluna innan sömu borgarinnar, heldur en í strjálbygðu og víðáttumiklu landi.

Á þessu geta menn séð, að það á sér víðar stað en á Íslandi, að kjördæmin eru ekki eingöngu miðuð við höfðatölu. Það er yfir höfuð alstaðar svo, að strjálbygðir landshlutar hafa hlutfallslega fleiri þingmenn, en þeir landshlutar, sem fjölmennastir eru, enda er þetta í sjálfu sér eðlilegt. Það er miklu minni vandi að kynnast þörfum 1000 manna, sem búa í þéttbygðum stað, heldur en jafnmargra íbúa, sem eiga heima á viðáttumiklu og torsóttu landflæmi.

Það er því engin ástæða til þess fyrir Reykjavík að heimta jafnmarga þingmenn sem henni ber eftir fólksfjöldanum, þó að hún mætti gjarna hafa einum þingmanni eða svo fleira, en hún hefir nú, en slík aukning mætti með engu móti vera á kostnað afskektu héraðanna, sem jafnan verður örðugast að ná rétti sínum á þinginu. Reykjavík stendur miklu betur að vígi en nokkurt annað kjördæmi á landinu með það, að hafa áhrif á vilja þingsins. Þingið er háð hér og eiga bæjarbúar því hægt með að kynna þingmönnum vilja sinn. Eg fæ ekki annað séð, en að þetta vegi talsvert á móti því, að þingmenn Reykjavíkur eru færri en vera bæri, ef eingöngu væri miðað við mannfjölda. Auk þess hygg eg, að reynslan hafi sýnt það, að hagur Reykjavíkur hafi ekki hingað til verið fyrir borð borinn af þinginu.