03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

113. mál, kosningar til Alþingis

Ráðherra (H. H.) :

Eg lít svo á, og eg skildi þingmenn þannig í fyrra, að ástæðan til þess, að ákveðið var að einungis 6 þingmenn skyldi kosnir hlutbundnum kosningum um alt landið, væri sú, að þeir vildu ekki fækka tölu þeirra þingmanna, er í kjördæmum eru kosnir, en alls eigi sú, að þeir vildu rígbinda sig við þá kjördæmaskipun, sem nú er.

Eins og eg drap á áðan, get eg ekki betur séð, en að stjórnarskipunarlagafrumvarpið heimti beinlínis einmenningskjördæmi. Orðin »í sérstökum kjördæmum« virðast hljóta að hafa þá merkingu, ef þau eiga á annað borð að tákna nokkuð.

Háttv. þm. er síðast talaði (B. Sv.) sagði, að flokkaskiftingin í landinu kæmi í veg fyrir það, að lítið brot kjósenda gæti ráðið úrslitum kosningar. En flokkaskipulagið hér á landi er nokkuð lauslegt enn sem komið er, og geta komið út skrítin úrslit í ýmsum kjördæmum, þrátt fyrir flokkaskiftinguna. Það eru jafnvel dæmi til þess, þrátt fyrir hana, að þau slys geta til viljað, að menn komist inn á þingið, án þess að nokkur hafi kosið þá, og án þess að nokkur vissa sé fyrir því, að þeir sitji ekki á þingi þvert á móti ósk og vilja meiri hluta kjósendanna í því kjördæmi, sem þeir eru fyrir.

Sami háttv. þm. (B. Sv.) taldi nauðsyn á, að leita álits héraðanna um þetta mál, áður en ráðist væri í að breyta kjördæmaskipaninni. En það hefir einmitt verið gert. Tillögur héraðastjórnanna voru lagðar prentaðar fram á þinginu 1905 og hér hefir verið tekið tillit til þeirra. Eg skil ekki, að nokkur bót yrði að því, þó að héraðsstjórnirnar væri beðnar um nýjar tillögur.

Enn sagði sami hv. þm. (B. Sv.) að það tíðkaðist ekki í menningarlöndunum að miða kjördæmin nákvæmlega við höfðatölu kjósendanna, og nefndi hann England til þess. En þó að Englendingum hafi ekki enn tekist að koma réttum jöfnuði á hjá sér í þessu efni, þá er það alls ekki eftirbreytnisvert, þvert á móti. Önnur stór mentalönd láta sér mjög ant um þetta, og sumstaðar er jafnvel tala þingmannanna ekki föst, fyrir þá sök, að svo nákvæmlega er farið eftir kjósendafjöldanum, að einn þingmaður á að vera fyrir tiltekna tölu íbúa. Í löndum þar sem kosningalagabreytingar eru á leiðinni — svo sem nú í Danmörku — er mjög mikil áherzla lögð á þetta.

Hér á þinginu hafa lengi heyrst kröfur í þessa átt. Hvað eftir annað hefir verið skorað á stjórnina að taka það til rækilegrar íhugunar, hvort ekki væri unt að koma hér meiri jöfnuði á í þessu efni. Þetta er ekki nein gömul úrelt krafa, eins og hann vildi gefa í skyn. Hún var síðast borin fram á þinginu 1907. Og að henni hefir ekki verið breytt síðan kemur af því, að tillögur til sambandslagabreytingar og stjórnarskrárbreytingar hafa verið á ferðinni, er mundu leiða með sér breyting á kosningalögunum, og þá mundi þetta koma um leið til meðferðar.

Á þinginu 1907 klofnaði nefndin í kosningalagamálinu, en það var eingöngu vegna ágreinings um hlutfallskosningu í stærri kjördæmum. Meiri hluti nefndarinnar hafnaði hlutfallskosningunni, en kom fram með tillögu um að skifta öllu landinu í einmenningakjördæmi, til þess að ná meiri jöfnuði. Það verður því ekki annað sagt, en að það sé í fullu samræmi við vilja þingsins, að tillaga um nýja skifting í einmenningskjördæmi er tekin upp í þetta frumvarp.

Þó að nú þetta frumvarp næði fram að ganga., er langt frá því að fullkominn jöfnuður fáist. Hér er einungis gerð tilraun til að bæta úr allra argasta ranglætinu. Mér nægir að skírskota til töflu B í athugasemdunum við frumv. til þess að sýna, hversu mikið ávinst í þessa átt með breytingum þeim, er frumvarpið fer fram á. Menn sjá, að þar sem kjördæmi eru stærst, í Reykjavík, vantar 32% á að þau hafi tiltöluréttan fulltrúafjölda eftir frv. En aftur á móti hefir minsta kjördæmið, sem stungið er upp á, Vestmannaeyjar, 52% fram yfir það, sem því ber að réttu hlutfalli. Þarna er auðvitað munurinn mestur, en víðar er hann mikill. Stjórnin sá sér ekki fært að gera þetta jafnara, enda yrði það vafalaust óvinsælt að raska hér meiru en allra nauðsynlegast er.