03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

113. mál, kosningar til Alþingis

Bjarni Jónsson:

Það er einungis stutt athugasemd, sem eg vildi gera. Það er ekki eingöngu óþarft, heldur beinlínis rangt af stjórninni að koma fram með þetta frumvarp nú. Það er á allra vitorði, að tillaga mín sem minnihlutans í stjórnarskrárnefndinni í fyrra, um að ekki skyldi kosnir nema 6 þingmenn hlutbundnum kosningum um alt landið, náði fram að ganga fyrir þá sök, að meiri hluti þingsins var á móti því, að kjördæmaskipuninni væri raskað. Það var mín höfuðástæða, er eg bar tillöguna fram og það var af þeirri ástæðu, að menn féllust á hana. Auk þess er það rangt að koma fram með þetta frv. þar sem þjóðinni hefir ekki verið gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós um það. Þó að hún hafi gert það 1907, þá er það ekki nú og skiftir þess vegna engu máli.

Þó að það sé alment, að kjördæmin sé miðuð við höfðatölu kjósendanna, þá verð eg, eftir því sem til hagar hér á landi, að hallast fremur að skoðun hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) heldur en að skoðun hæstv. ráðherra (H. H.) á því máli. Afskektum, víðáttumiklum og strjálbygðum héruðum, er miklu meiri þörf á afskiftum löggjafarvaldsins, en hinum, sem minna eru afskekt, minni um sig og þéttbygðari. Hvaða þörf höfum vér Reykvíkingar, sem allir búum á sama blettinum, á fjölda þingmanna? Það sem tryggja þarf með þingmönnunum er það, að rétt þekking á hverju kjördæmi landsins komist inn í þingið. Og um Reykjavík situr þekkingin margföld í þinginu þó að þingmenn hennar sé fáir í hlutfalli við fólksfjöldann. Við Reykvíkingar höfum fjölda blaða, og fjöldi þingmanna, sem kominn er fyrir önnur kjördæmi landsins, á hér heimili. Nei, Reykjavík hefir ekki verið og verður ekki olnbogabarn þingsins, þó að ekki verði fjölgað þingmönnum hennar. Og þó að hún hafi aldrei fengið neina fjárveitingu frá þinginu, nema til hafnarinnar — sem eg hefi reyndar altaf talið öllu landinu veitta — þá nýtur hún svo mikils af öllu því fé, sem veitt er til skólanna og allra þeirra mörgu embættismanna, sem hér eiga heima, að hún þarf ekki að kvarta. Þar að auki dregur það úr þingmannaþörf Reykjavíkur, þegar hún hefir slíkum gripum að beita fyrir vagn sinn sem þm. Árnesinga, sem oft þurfa að heimta fé til vega austur í sveitir o. fl o. fl.

Enn má nefna eitt, sem dregur úr þingmannaþörf Reykjavíkur. Alþjóðkjörnu þingmennirnir 6 hljóta að meira eða minna leyti að verða Reykvíkingar. Það leiðir af sjálfu sér, að flokksstjórnirnar eiga sæti í höfuðstaðnum og auk þess er hér mest um þjóðkunna menn. Alt bendir þetta í þá áttina, að fulltrúum Reykjavíkur þurfi ekki að fjölga. Og þó að t. d. atkvæðin í Norður-Ísafjarðarsýslu hafi eitthvað dálítið meira gildi en atkvæðin í Árnessýslu, þá styðst það við það, að þörfin á afskiftum löggjafarvaldsins er meiri fyrir afskektu og fámennu sýsluna. Það er ósköp vandalítið að setja upp langar og breiðar tölutöflur — það get eg gert líka — en það er ekki altaf að tölurnar komi heim við virkileikann, og hér koma þær alls ekki heim við þá verulegu þörf.