30.07.1914
Neðri deild: 25. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

88. mál, landsdómur

Pétur Jónsson:

Það er óþarfi af háttv. þm. Dal. (B. J.), að gefa það öðrum að sök, þó að hann skilji ekki mælt mál. Eg hélt satt að segja, að honum, eins mentur og hann er, hefði ekki átt að vera það ofvaxið að skilja það, sem eg fór með. Eg var ekki að gera flutningsmönnum frumv. upp neina ákveðna hugsun, heldur sagði eg, að jafnvel þótt eg teldi þessar breytingar, sem fram á er farið, til bóta, þá þætti mér óþarfi að vinda svo bráðan bug að þeim, að þær megi ekki bíða til næsta þings, úr því, að þá er ætlast til, að öllum landsdómslögunum verði breytt. Eg taldi þetta óþarft, nema ef svo væri, að menn hefði í hyggju að beita lögunum nú þegar — eg sagði ekki að neinn maður hefði það í hyggju — og jafnvel þó að svo væri, þá taldi eg það óviðeigandi. Eg vona, að aðrir háttv. þm. skilji þetta, þó að háttv. þm. Dal. (B. J.) geri það ekki.