01.08.1914
Neðri deild: 26. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Matthías Ólafsson:

Eg bjóst ekki við því, að svona langar umræður yrði um þetta mál. Eg skal geta þess út af orðum háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) að eg býst við, að nefndin verði að halda fast við það ákvæði, sem honum fanst sérstaklega athugavert. Það gæti svo farið, að jafnvel þótt vér þegar í stað gerðum ráðstafanir til þess að fá vörur frá útlöndum, að þær ráðstafanir væri um seinan. Og þá væri ilt, ef margir menn stæði uppi alveg matvælalausir.

Háttv. þingm. (P. J.) sagði, að erfitt mundi verða að koma íslenzkum vörum, síld og fiski, til útlanda, ef almennur ófriður hæfist í Norðurálfunni. En eg tel það ekki ólíklegt, að hægt verði að koma þessum vörum til Suðurlanda, þó að Vesturlöndin ætti í ófriði. Nefndin verður því að halda fast við það, að stjórninni sé leyft að banna útflutning á nauðsynjavörum, ef þörf gerist. Auðvitað er þetta örþrifaráð, sem ekki verður gripið til, nema í ítrustu nauð, þegar öll önnur sund eru lokuð.

Viðvíkjandi athugasemd háttv. umboðsmanns ráðherra (Kl. J.) skal eg geta þess, að nefndin leggur sama skilning og hann í ákvæði frumvarpsins, að stjórnin mætti leyfa, þrátt fyrir samþykt frumvarpsins, að hjálpa útlendum skipum um næg kol til þess að komast héðan heim til sin. En auðvitað er ekkert á móti því að samþykkja brtill., sem gerir þetta atriði alveg skýrt — staðfestir þennan skilning nefndarinnar.