03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

113. mál, kosningar til Alþingis

Benedikt Sveinsson; Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir tekið af mér ómakið, svo að eg þarf ekki að vera langorður. Hann gat þess, eins og reyndar allir vita og á þingtíðindunum sést, að ástæðan til þess, að komið var fram með tillöguna um, að aðeins skyldi kosnir 6 þingmenn hlutbundnum kosningum, var sú, að menn vildu ekki raska kjördæmaskipun landsins. Og af sömu ástæðu náði þessi tillaga samþykki þingsins. Hæstv. ráðherra (H. H.) reynir að snúa út úr þessu með því að halda því fram, að tillagan hafi verið samþykt vegna þess, að menn hafi ekki viljað fækka tölu þjóðkjörinna þingmanna. Þetta er rétt það sem það nær, en hér er ekki nema hálfsögð sagan. Menn vildu ekki fækka tölu þjóðkjörinna þingmanna, vegna þess, að menn vildu ekki þurfa að hagga kjördæmaskipuninni. Hæstv. ráðherra (H. H.) hefir ekki getað hugsað setninguna til enda.

Eg benti á, að eftir reynslu síðari tíma væri ekki svo sérlega mikil brögð að því, að þingmenn væri kosnir með fáum atkvæðum, með því kosningafyrirkomulagi, sem nú er. Í því sambandi bendir hæstv. ráðherra (H. H.) á það svo sem til þess að hnekkja mínu máli, að á síðari tímum sé jafnvel dæmi til þess að menn komist inn á þingið án þess, að vissa sé fyrir, »að nokkur maður sá þeim fylgjandi«, — eftir því, sem honum fórust orð. Þetta er kynleg »logik« hjá hæstv. ráðherra. Finst honum þá, að frumvarpið, sem hann ber hér fram, muni bæta úr því, að menn komist inn á þingið án þess nokkur maður sé þeim fylgjandi? Og ef honum finst það ekki, hvers vegna lét hann það ekki verða sitt fyrsta verk að ráða bót á þessu hneyksli, undir eins og hann tók eftir því? Ef nokkur hæfa eða vitneisti væri í ummælum hæstv. ráðherra um þetta atriði, þá hefði hann átt að lagfæra þennan mikla ágalla í nýju kosningarlögunum. En hann lætur það vera. Hér standa alveg sömu ákvæðin um þetta efni, sem í eldri lögunum. Það er auðséð, að ráðherra. varpar þessu fram alveg óíhugað, enda lætur honum betur að slá um sig með sinni gömlu, alþektu »skáldalogik«, bygðri á orðaleikjum og útúrsnúningum, heldur en að beita rökréttri hugsun. Í núgildandi lögum er einmitt skilyrðið strangara fyrir frambjóðendur, en það var meðan opinbera atkvæðagreiðslan var viðhöfð, því að nú er heimtuð yfirlýsing 12 manna, að minsta kosti, um að þeir sé þingmannsefninu fylgjandi, ef framboðið á að vera gilt. Um þetta virðist hv. ráðherra (H. H.) ekki hafa neina hugmynd. Auk þess virðist eðlilegra að álykta svo, þegar frambjóðandinn er aðeins einn, að sannanir vanti þá fyrir því, að nokkur maður í kjördæminu sé á móti honum, í stað þess að ráðh. ályktar svo, að þá sé allir á móti honum! Annars verður að taka vægt á hæstv. ráðh. fyrir þessa hugsunarvillu, þar sem hann mælti þetta í bræði sinni, einkum þar sem slíkt er þá ekki óvanalegt úr þeirri átt.