30.07.1914
Neðri deild: 26. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Skúli Thoroddsen :

Það er óefað gott, að frumvarp þetta er komið fram, og sjálfsagt að greiða götu þess því sem bezt. — En háttv. flutningsmenn hafa haft nauman tíma til undirbúnings, enda virðist talsverður fljótfærnisbragur á frumvarpinu í mörgum greinum, og þar sem svo mun til ætlast, að málið gangi gegnum allar umræður nú í kvöld, þá er nauðsynlegt að vikið sé nú þegar að einstökum greinum frumvarpsins, þótt þetta sé 1. umr. málsins.

Að því er snertir 3. gr. frumv., þá skal eg því fyrst geta þess, að eg felli mig illa við það, er ákveðið er, að stjórninni skuli heimilað að hefta útflutning innlendrar vöru, eða einstakra vörutegunda. Eins og þetta er orðað í frumvarpinu, þá er ákvæðið alt of víðtækt.

Það er ekki ósennilegt, að margir kaupmenn hafi nú þegar gert bindandi samninga um sölu fiskfarma, eða um sölu á síldarafurðum o. fl., og jafnvel um sölu á haustvarningi sínum. Ætlar nú alþingi að neyða þessa menn til að gerast óorðheldnir? Er það ekki hugsanlegt, að menn geti þá jafnvel orðið skaðabótaskyldir fyrir samningsrof? Auk þessa sé eg hvergi, að flutningsmennirnir, sem ætla sér þó að kyrrsetja allan saltfisk og aðrar íslenzkar afurðir, hafi þá látið sér hugkvæmast að veita stjórninni heimild til þess, að kaupa þá innlendu vöruna af kaupmönnunum. Og væri þó til þess ætlast, hvar á þá að geyma hana ? Hvernig á stjórnin að haga sölunni? Á hún að setja upp sölubúðir, eða útvega sér umboðasala o. s. frv., o. s. frv. ?

En sé eigi til þess ætlast, að landið kaupi sjálft innlendu vöruna, sem kyrrsett er, þá hafa kaupmennirnir alls enga tryggingu þess, að varan verði keypt af þeim. Landið framleiðir meira af fiski, síld, kjöti o. fl. o. fl. en vér getum sjálfir etið eða hagnýtt.

Þá virðist mér og eigi síður illa gengið frá frumv. að því er snertir ákvæðin, er stjórninni fela að birgja landið að vörum frá útlöndum, þar sem ekki er í frumv. gefin nein bending um það, hvað stjórnin eigi að gera við vörurnar. Á hún að setja upp verzlun? Eða er svo til ætlast, að hún veiti mönnum vöruna ókeypis? Um þetta og margt fleira, þyrfti skýr ákvæði.

Þá álít eg það ákvæði frumvarpsins alveg ótækt, að stjórninni er heimilað að ákveða verð á nauðsynjavöru. Háttv. flutningsmenn hafa auðajáanlega vegna flýtisins ekki munað eftir 50. gr. stjórnarskrárinnar, sem segir, að eignarrétturinn sé friðhelgur, og enginn verði neyddur til þess að láta af hendi eign sína nema almenningsheill krefjist og fult endurgjald komi fyrir.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að hagur einstaklingsins yrði að víkja fyrir hag fjöldans. Það er að vísu rétt, en stjórnarskráin tryggir þó einstaklinginn með því, að setja það og sem skilyrði, að fult endurgjald komi fyrir. En hækki vörur í verði, þá er verðhækkunin auðvitað eign kaupmannsins, og alþingi hefir ekki leyfi til þess að taka af honum einn eyri þeirrar eignar hans, án þess fult gjald komi fyrir.

Eg er og eigi í neinum vafa um það, að þó að vér samþykkjum svona lög, þá verði reyndin þó sú, og hljóti að verða, að enginn dómstóll í landinu meti þau að nokkru, — í engum vafa um það, að dómstólarnir meti lögin alþýðingarlaus, sem stríðandi gegn ákvæðum sjálfrar stjórnarskrárinnar.

Það er auðvitað vel hugsað, að veita stjórninni heimild til þess að taka 500 þús. kr. lán til þess að bæta úr vankvæðunum sem mest má verða, en mér er ekki vel ljóst, hvar nefndin ætlast til að stjórnin geti gripið það fé upp. Eg er hræddur um, að það gangi nokkuð tregt, eins og horfurnar eru nú í útlöndum. En auðvitað sakar það ekki, þótt heimildin sé til, og skal eg því eigi fara út í þá sálmana frekara.

Eg hefi þá vikið að fáeinum atriðum, sem mér hafa við fljótlegan yfirlestur virzt athugaverð; og vænti þess, að háttv. flutningsm. taki nú þessar athugasemdir til greina, og leiðrétti frv. samkvæmt þeim áður en til 2. umr. kemur.