30.07.1914
Neðri deild: 26. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Framsögum. (Einar Arnórsson) Eg veit ekki, hvort það er rétt við þessa umræðu að svara öllum athugasemdum háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). En fyrst honum hefir verið leyft að bera þær fram, þá hlýtur mér að vera leyfilegt að svara þeim.

Háttv. þm. (Sk. Th.) sagði viðvíkjandi 3. gr. frumv., að ef menn, sem gert hefði samning um afhending á varningi sínum, yrði með lögum neyddir til þess að inna ekki greiðsluna af hendi, þá mundi það verða skoðað sem samningsrof af þeirra hendi og baka þeim skaðabótaskyldu. Eg held, að háttv. þm. (Sk. Th.) hafi sagt þetta án þess að hafa athugað það nánara. Það er sem sé algild setning í kröfuréttinum; að enginn verður dæmdur fyrir samningsrof, þegar «vis majór« er, fyrir hendi, svo sem herkvíun eða útflutningsbann. Eg held, að engum geti dottið í hug, að það geti varðað nokkrum viðurlögum. Vér höfum líka haft hér fyrir oss símskeyti frá útlendum kaupmönnum, þar sem þeir lýsa yfir því, að um nokkurn tíma gangi þeir frá öllum tilboðum sínum ekki að eins um verð á vörum, heldur einnig um afhendingu yfirleitt. Eg hygg því, að þetta sé ástæðulaus grýla hjá háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.).

Háttv. þm. (Sk. Th.) fann að því, að ekki væri tekið fram í frumvarpinu að stjórninni væri heimilt að kaupa vörur af innlendum kaupmönnum. Nefndin leit svo á, sem það væri alveg óþarft að kveða á um þetta. Eftirspurnin mun nóg verða eftir þeim vörum, og því óþarft að landið færi að kaupa þær. Og þótt þetta ákvæði um heimildina fyrir stjórnina til þess að stöðva sölu á vörum verði samþykt, þá ber þess að gæta, að hér er ekki um annað en heimild fyrir stjórnina að ræða, sem hún þarf alls ekki að nota út í yztu æsar. Hún hefir í því efni sér til aðstoðar 5 menn, sem helzt ætti einhverir að vera verzlunarfróðir. Það mundi ekki verða stöðvað meira en nauðsynlegt væri. En eftirspurnin eftir vörum mundi gera heimildina fyrir stjórnina til þess að kaupa af innlendum kaupmönnum óþarfa.

Háttv. þm. (Sk. Th.) spurði líka, hvort nefndin ætlaðist til þess, að stjórninni væri heimilað að gefa vöruna. Ákvæði 4. gr. skýra það nægilega, að svo er ekki, því að þar er einmitt ákveðið, að stjórnin kveði á um verð vörunnar. Það atriði kvað háttv. þm. (Sk. Th.) brot á 50. gr. stjórnarskrárinnar. Auð vitað má deila um það. En sé svo, þá útilokar þetta ákvæði ekki þá menn, sem þykir sér gerður óréttur, frá því að bera mál sitt undir dómstólana. Og kæmist þeir að sömu niðurstöðu, sem háttv. þm. (Sk. Th.), þá ætti mennirnir auðvitað rétt til skaðabóta. Og jafnvel þótt svo yrði, þá mætti ekki horfa í það, að skaðabæturnar yrði nokkuð háar, ef hungursneyð vofði yfir að öðrum kosti og almenningsneyð. Annars er eg ekki sannfærður um, að þetta sé rétt kenning hjá háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). Ef svo væri kveðið á, að hefta mætti útflutning vörunnar og eigandi fengi ekkert verð fyrir, þá væri það augljóst stjórnarskrárbrot. En hitt, að setja hæfilegan taxta, efa eg, að sé brot á stjórnarskránni. Annars er það sjálfsagt, að flutningsmenn athugi þetta ákvæði nánara.

Þá held eg að eg hafi svarað öllum athugasemdum háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.).