30.07.1914
Neðri deild: 26. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Framsögum. (Einar Arnórsson) :

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.). Það er rétt, að þegar ástandið er »normalt« þá framleiðum vér meiri fæðu en vér getum etið. En hann gætir ekki að því, að þótt vér getum framleitt fisk og kjöt, þá er það fremur tilbreytingarlítil fæða, og kornskortur getur orðið oss að hinu mesta óliði. Eg þarf ekki annað í þessu efni en að benda honum á kornskortinn, sem stundum varð hér á einokunartímabilinu. Og svo er annars að gæta, að teppist siglingar á óheppilegum tíma, þá getum vér ekki aflað oss þeirra kraftgjafa frá útlöndum, sem er nauðsynlegt skilyrði fyrir því, að geta rekið sjávarútveg — kolin. Botnvörpungarnir yrði að hætta veiðum, og eg býst ekki við því, að sá fiskur, sem vér höfum nú í landinu, dugi oss mjög lengi til fæðu. Og hvernig eigum vér að skifta við útlendar þjóðir á fiski og korni, þegar vér getum engan fisk veitt ?

Vér getum ekki sagt fyrir um framtíðina, en það er oss skylt, að reyna að koma í veg fyrir það böl, eftir mætti, er oss stafar eða getur stafað af Norðurálfustyrjöldinni. Og það er líklegt, að siglingar geti tepst um tíma, hvernig sem úrslitin verða milli Íslands og annarra Norðurálfulanda. Bæði getur orðið lagt bann við kolaútflutningi frá Bretlandi, svo er til nokkuð, er »Blokade« (herkvíun) er kallað, er hamlar ferðum að landi og frá. Og hvar værum vér staddir, ef t. d. Þjóðverjar gæti herkvíað Bretland ?

Athuganir hv. 1. þm. Húnv. (G. H.) geta verið réttar, ef samgöngur teppast ekki, en getur hann ábyrgst að slíkt komi ekki fyrir ?