31.07.1914
Neðri deild: 27. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Framsögum. (Einar Arnórsson) :

Þessari spurningu frá hv. samþingismanni mínum (S. S.) um það, hvort nefndin samkvæmt 1. gr. frv. mundi fá kaup fyrir starfa sinn, get eg ekki svarað. Svo er mál með vexti, að á þetta hefir ekki verið minst í nefndinni. Þetta er aukaatriði, sem líklega engum hefir þótt ástæða til að minnast á. Frá mínu sjónarmiði þykir mér líklegt, að nefndin vinni kauplaust; bæði mun væntanlega starf hennar standa stutta stund, og í annan stað munu menn ekki reynast svo eigingjarnir, að þeir vilji ekki leggja föðurlandi sínu liðsinni ókeypis, er það er í hættu. Stofnun eimskipafélagsins íslenzka er gott dæmi þess, hvað menn vilja leggja í sölurnar fyrir föðurlandið. Það voru fáeinir menn, sem unnu að stofnun þess, alveg ókeypis. Eg efast ekki um, að nógu margir menn fáist til þess að ljá stjórninni liðsinni. Eg tel sjálfsagt, að það komi undir sameinað þing að kjósa nefndina, og kemur þá og þar sjálfsagt til álita, hvernig eigi að skipa hana að mönnum.