31.07.1914
Neðri deild: 27. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Bjarni Jónsson; Eg vildi aðeins stuttlega minnast á hinar siðfræðilegu athugasemdir háttv. sessunautar míns (þm. N.-Ísf.). Sé þinginu það t. d. óleyfilegt, að takmarka ágóða af verzlun til almenningsheilla, þá hygg eg, að þeir kaupmenn, sem ætla sér að selja út vörurnar, en drepa þjóðina úr sulti, mætti leita að sínum kapítula í siðfræðinni; þeim væri ekki síður þörf á að glöggva sig á honum en þinginu, og líklega hættara við að gleyma honum, því að ekki eru þeir vitibornari en það. Þinginu hlýtur að vera það fullkomlega heimilt, að ákveða og láta stjórnina framkvæma nauðsynlegar tálmanir fyrir þjóðarsveltu, til ágóða fyrir einstaka menn.

Annars er vert að gæta þess, að alt, sem vér gerum í þessu efni, kemur því aðeins til framkvæmda, að styrjöld verði.

Nú vitum vér, að þessar þjóðir eru enn ekki farnar að berjast. Það getur verið, að þær berjist alls ekki, og ef svo fer, þá tekur aldrei til þessa. En ef alt lendir í ófriði, og engar bjargarvonir eru utan að, þá er það mála sjálfsagðast, að stjórnin hafi leyfi til þess að hindra útflutning á vistum. Noregskonungur lagði til forna farbann á menn í Noregi, og Alþingi hið forna bannaði að flytja skreið úr landi, einmitt af þessari sömu ástæðu. Það vildi ekki láta þjóðina verða hungurmorða til þess að einstakir menn gæti grætt.