31.07.1914
Neðri deild: 28. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Framsögum. (Einar Arnórsson):

Nefndin hefir komið saman síðan seinast var haldinn fundur og athugað aðfinslur þær, sem fram hafa komið gegn einstökum atriðum. Það hefir orðið að ráði í nefndinni, að heppilegast muni vera að halda sér við 5 manna nefnd. Aftur á móti vill hún fella burt úr frumv. orðin: »með ráði nefndarinnar« í fyrsta lagi af því, að það er óþörf endurtekning, og í öðru lagi af því, að menn leggja misjafnan skilning í það. Sumir skilja það svo stranglega, sem þar stæði »með samþykki nefndarinnar«. Og er þó varla hægt að leggja þann skilning í það. Tel eg svo óþarft að fara fleiri orðum um þetta.

Í 4. gr., 2. málsgr., hefir einum háttv. þm. ekki þótt það koma nógu skýrt fram, í hvaða skyni megi taka ekki aðeins matvæli, heldur og eldsneyti, eignarnámi. Þetta kom til orða í nefndinni, og áleit hún þetta nógu skýrt, en ekki hefi eg á móti því, þótt komið yrði með viðauka- eða breyt.till. í þessa átt, því að um þetta er víst enginn skoðanamunur.

Þá er líka breyt.till. frá háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) í þá átt meðal annars, að breyta 1. gr. Um það býst eg við að nefndin sé honum ekki samdóma, en allar hinar breytingarnar eru samhljóða breyt.till. okkar, nema hvað hann sleppir úr 4. gr., 2. málsgr., og þarf eg því ekki að orðlengja neitt um þær.