03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

113. mál, kosningar til Alþingis

Jón Magnússon:

Eg hygg, að ástæðulaust sé að lengja þessa umræðu að sinni. Eg vona, að tækifæri verði til þess að ræða þetta frumvarp ítarlegar síðar. Á þessu stigi málsins eru langar umræður gersamlega óþarfar. En hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) hefir víst virzt það nauðsynlegt að sýna nú þegar, hve æstur hann er í þessu máli. Eg held, að meira tillit mundi þó tekið til orða hans, ef menn vissi ekki, að hann er þingmaður fyrir eitt af hinum allra minstu kjördæmum landsins, sem að undanförnu hefir notið miklu meiri réttar, en það hefir átt í samanburði við önnur kjördæmi landsins.

Það er annars leitt að þurfa að vera að berjast á móti ataðleysum. Það er ekkert hægt að segja því til bóta, að atkvæðið eigi ekki að vera jafnrétthátt alstaðar. Það er ekki hægt að sannfæra neinn mann, sem á annað borð viðurkennir rökfræðislegar grundvallarreglur, um það, að hver borgari þjóðfélagsins eigi ekki rétt til þess að hafa jafnmikil áhrif á landsmál með atkvæði sínu og annarra. Þegar verið er að vitna til annarra landa í þessu efni, þá sýnir það ekki annað, en að þau lönd, sem vitnað er til, eru ekki komin svo langt, að þau hafi fengið leiðrétt þetta margra alda gamla misrétti. Og það, að landshættir eru mismunandi á ýmsum stöðum, eigi að réttlæta það, að sjálfsagður réttur manna sé skertur, er hreinasta fjarstæða. Héruðin hér á landi eru heldur ekki ólíkari hvað landshætti snertir, en víða á sér stað annarsstaðar — nema síður sé. T. d. mun ekki vera sá mismunur á þörfum og atvinnuvegum sýslnanna innbyrðis eins og víða á sér stað í útlöndum, þar sem héruð ganga til kosninga saman og annað þeirra lifir á akuryrkju, en hitt á kvikfjárrækt.

Annars þarf ekki að benda á annað í þessu máli, en að hér er um hið stakasta misrétti að ræða, sem verður að leiðrétta strax og unt er. Og eg hygg, að það gangi illa fyrir háttv. þm. N.-Þing. að sanna það, að borgari hér í Reykjavík eigi ekki rétt til þess að hafa jafnt atkvæði um landamál og aðrir borgarar. Það er hreinasta fjarstæða, að Reykjavík hafi meiri rétt, að því er kosningu væntanlegra landskjörinna þingmanna snertir. Reykvíkingar kjósa þar að eins eftir réttri hlutfallatölu milli atkvæðisbærra manna hér og annarstaðar á landinu. Og það er sá eini rétti mæli. kvarði á þessu máli — kjósendatalan.

Það er jafnrangt hjá háttv. þingm. þegar hann byggir mótbárur sínar á því, að þingið hafi ekki ætlast til þessa. Hvort, sem til þess hefir verið ætlast eða ekki, þá á að bæta úr misréttinum undir eina og augu manna opnast fyrir því.

Eg hafði ekki ætlað mér að taka til máls, en fanst eg ekki geta hjá því komist, vegna ummæla háttv. þingm. N.-Þing, (B. Sv.). Annars hefir hæstv. ráðherra tekið flest það fram, sem segja þarf. Þó skal eg bæta því við, að mér finst frumv. stjórnarinnar ekki fara nógu langt, vegna þess, að það tekur líka tillit til landshátta, en hér er ekki um annan mælikvarða að ræða, en kjósendafjöldann, enda hefir og verið á þessu bygt alstaðar í nýjum kosningalögum frjálalyndra landa.

Skal eg svo ekki lengja umræðurnar frekara að sinni.