12.08.1914
Neðri deild: 43. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

128. mál, siglingalög

Flutningsm. (Einar Arnórsson) :

Þetta litla frv. stendur í nánu sambandi við það frumv., sem verið var rétt núna að vísa til 3. umr. Það stendur svo á að, í 11. gr. siglingalaganna er talað um það, hve nær skip missir rétt til þess að sigla undir »dönsku« flaggi. Nú stendur til, að vér fáum jafnframt íslenzkan fána samkvæmt konungsúrskurði 22. nóv. 1913. En ef vér fáum íslenzkt flagg, þá er í þessu ósamræmi, því að þá verður eigi að eins að ræða um missi réttar til þess að sigla undir dönskum fána, heldur einnig missi réttar til notkunar íslenzka fánans. Það hefir því orðið að ráði, að setja orðalag 11. gr. laganna í samræmi við þá breytingu, sem væntanlega verður gerð á, ef vér fáum íslenzkan fána.

Eg vænti þess, að þetta frumv. gangi umræðulaust í gegnum þingið, þar sem það er fram komið til að breyta lögunum í þá átt, að fult samræmi verði milli skrásetningarlaganna og siglingalaganna.