04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

23. mál, tollalög

Framsögum. (Einar Arnórsson) :

Frumv. þetta, sem er komið hingað frá Ed., er á þskj. 212 í því formi, sem Ed. afgreiddi það.

Nefndin, sem háttv. Nd. kaus til að athuga þetta mál, hefir orðið sammála um það, að rétt væri að hækka refsingar við tollsvikum. Eins og kunnugt er, hafa gengið sagnir miklar af því, að nú kvæði talsvert að tollsvikum hér í þessum bæ, svo að full ástæða virðist til þess, að löggjafarvaldið láti þetta mál til sín taka.

Hins vegar hefir nefndin orðið sammála um, að rétt væri að breyta ýmsum ákvæðum frá því, sem þau eru í Ed. frv.

Eins og frv. er nú orðað, þá nær það að eins til hinna almennu toll-laga, en ekki er hægt að nota ákvæði þess um samskonar brot gegn vörutollslögunum frá 1912. Þetta virtist oss þurfa að lagfæra. Vörutollslögin eru í eðli sínu sams konar og almennu toll-lögin, og því rétt að láta sömu ákvæði gilda um refsingar fyrir brot á þeim. Það getur verið að landssjóð drægi það minna, þótt vörutollslögin sé brotin, en brotin eru samt í eðli sínu þau sömu, og því rétt að hegna á sama hátt fyrir þau sem brot gegn hinum almennu toll-lögum.

Þá höfum vér og lagt til, að verzlunarleyfi skyldi því að eins missast, að að miklar sakir væri.

Þá hefir nefndin viljað greina milli brotanna eftir því, hvort þau eru aðeins brot á móti tolllögunum frá 11. júlí 1911 eða vörutollslögunum 1912, eða einnig brot móti 155. gr. hinna al mennu hegningarlaga. Þá hefir nefndin einnig viljað, samræmisins vegna, hækka refsilágmark 155. gr. hegningarlaganna svo mikið, að það gæti aldrei orðið lægra en refsilágmark fyrir hreint tolllagabrot. Hún hefir því stungið upp á 30 daga einföldu fangelsi, sem refsilágmarki, og svarar það til 100 króna sektar.

3. brt. nefndarinnar á þskj. 287 er alveg sjálfsögð, því að tolllagabrot á að fara með sem alm. lögreglumál, en brot gegn hegningarlögunum eiga að sæta almennri sakamálameðferð.

Sömuleiðis sýnist mér viðaukatillaga nefndarinnar á þskj. 344 vera sjálfsögð. Hún er um það, að póstmönnum sé heimilt að láta opna böggulsendingar, ef grunsamt þætti að í þeim fælist tollskyldar vörur.

Eg vona að þetta mál fái að ganga fram með breytingum nefndarinnar og skal því ekki lengja umræðurnar frekara.