30.07.1914
Neðri deild: 25. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

15. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Jónsson:

Eg þakka háttv. þingm. V.-Ísf. (M. Ó.) fyrir það, hve vel hann tekur í þetta mál. Eg get fyrir mitt leyti tekið undir með honum um það, að sýslunefndaroddviti ætti ef til vill ekki að hafa atkvæðisrétt, þegar hann á ekki heima í sýslufélaginu. En eg sé samt ekki, að af því geti stafað nein hætta. Og sumum kynni að finnast það ósanngjarnt, af því að hann ber ábyrgð á fjárhag sýslunnar. Hætta getur engin af því stafað, að hann hafi eitt atkvæði, því að þó svo væri, að hann héldi einhverju fram, sem færi í bága við vilja einhverra sýslunefndarmanna, þá er alt af hægurinn hjá fyrir sýslunefnd, að taka af honum ráðin með atkvæðamagni.