06.08.1914
Neðri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

15. mál, sveitarstjórnarlög

Frams.m. (Matthías Ólafsson):

Breyt.till. mína á þskj. 284 tek eg hér með aftur.

Þá er önnur breyt.till. við þetta frv: komin fram frá háttv. 2. þingm. S.-Múl. (G. E.). Nefndin hafði vonað, að hann mundi taka hana aftur, en á síðustu stundu tók hann því mjög fjarri að gera það, og kemur breyt.till. hans þar af leiðandi til umræðu. Breytingin er í því fólgin, að síldveiði með nót, sem umgetur í 1. gr. frumv. verði látin heyra undir ákvæði 2. gr. að því er útsvars skyldu snertir. Á þetta gat meiri hluti nefndarinnar ekki fallist, og þar sem hann telur nokkra réttarbót í frv. eins og það kom frá Ed., en hins vegar hæpið að Ed. samþykki það ef breyting verður gerð á því, þá leggur hann til að breyt.till. háttv. 2. þm. S.-Múl (G. E.) verði feld, en frv. samþykt óbreytt.

Að öðru leyti sé eg ekki neina ástæðu til að fjölyrða um frumv. Það er svo stutt og óbrotið, að það hlýtur að liggja ljóst fyrir hverjum manni.