06.08.1914
Neðri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

15. mál, sveitarstjórnarlög

Magnús Kristjánsson:

Eg verð að vera þeirrar skoðunar, að háttv.2. þm. S.-Múl. (G. E.) hafi rétt fyrir sér í þessu máli, og hygg eg að nefndin hafi tæplega athugað það sem skyldi. Eg verð að álíta breyt.till. háttv. þm. (G. E.) á þskj. 358 mjög nauðsynlega. Raunar er mér næstum óskiljanlegur þessi málarekstur sem hann skýrði frá, og að undirréttur og yfirréttur skyldi leggja mismunandi skilning í lögin að þessu leyti, því að eg álít, að þau gefi naumast tilefni til slíka. En enn þá er ekki unt að segja, hvernig hæstiréttur lítur á þetta mál, því að hans úrskurður er ekki kominn.

En hvað sem þessu liður, þá get eg ekki talið það heppilegt fyrirkomulag, að menn geti naumast komist út af heimilinu til þess að reka atvinnu sína, án þess að vera eltir með gjöldum, næstum því eins og hverjum einum þóknast. Þetta er þvert á móti afleitt og ekki til annars, en að vekja glundroða og óvissu á ýmsan hátt, og er merkilegt að það skuli einungis gilda um þenna eina atvinnurekstur. Þeir sem við hann fást mega altaf vera við búnir, eg vil ekki segja ofsóknum, heldur að vera lagðir í einelti, að þessu leyti, undir eins og þeir fara út af heimilinu. Eg verð því að álíta breyt.till. háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) nauðsynlega, því að það getur hvorki talist eðlilegt né sanngjarnt, að maður, sem stundar síldveiði utan síns hrepps nokkra daga eða svo sem vikutíma, sé útsvarsskyldur í þeim hreppi sem hann veiðir í þenna stutta tíma.

Það mundi í langflestum tilfellum vera mjög ranglátt. Hreppurinn sem veitt er í fær venjulega ýms hlunnindi af veiðinni án þess, atvinnu o. fl.

Eg vil bæta því við, að ákvæðið um, að menn megi ekki fara út fyrir sýslutakmörkin til síldveiða, án þess að verða útsvarsskyldir, í öðrum hreppi eða hreppum en sínum eigin, er í rauninni hæpið líka, og erfitt að koma því við. Því hagar víða svo til, að firðir skifta sýslufélögum, og er þá ilt við það að búa, að mega ekki fara þvert yfir fjörðinn í síldarleit án þess að verða útsvarsskyldur, ef til vill á fleiri stöðum. Eftir frv. eins og það er, getur sami maðurinn átt á hættu, að verða útsvarsskyldur á 10–12 stöðum á sama gjaldári.

Eg hygg, að ef menn athuga málið vel, þá þyki þeim varhugavert að fella breyt.till. á þskj. 358, því að þó að hún komi ekki í veg fyrir ýmisleg óþægindi, sem fyrir geta komið í þessu efni, þá bætir hún þó talsvert úr ákvæðum frumv. Eg vil því eindregið skora á deildina, að hugsa sig vel um, áður en til atkvæða er gengið um breyt.till. og frumvarpið.