06.08.1914
Neðri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

15. mál, sveitarstjórnarlög

Guðmundur Eggerz:

Eg verð að álíta, að það sé óþarfi, að koma með ónot í svona máli, eins og háttv. framsögum. (M. Ól.) gerði í ræðu sinni. Hann hefir nú étið ofan í sig breyt.till. þá, sem hann kom fram með við frumv. og er það ekki framar venju, því að hann hefir jafnan haft þann sið, að taka það aftur deginum á eftir, sem hann hefir haldið fram deginum áður. En þó að þetta sé hans venja, þá þarf hann ekki að undrast, þó að aðrir geri ekki hið sama.

Þá var talsvert öðruvísi blær á ræðu háttv. þm. Ak. (M. Kr.) heldur en á ræðu háttv. framsögum. (M. Ól.) og kom það ekki flatt upp á neinn, sem þekti mennina báða. Háttv. þm. Ak. (M. Kr.) er því vanur að tala með greind og þekkingu um þau mál, er hann lætur til sín taka, en það verður ekki sagt um háttv. framsögum. (M. Ól.). Hann sagði, að því að mér skildist, að á Austfjörðum eins og annarsstaðar væri síldinni ausið upp úr sjónum svo að skifti mörgum þúsundum króna. Ef hann ætlar að finna þeim orðum stað, þá verður hann að fara svo sem 25 ár aftur í tímann, því að síðan hefir það aldrei komið fyrir, að einu ári undanteknu, að á Austurlandi hafi veiðst meiri síld en ríflega til beitu. Er hörmulegt til þess að vita, að fiskiveiðaráðunauturinn, sem á að leiðbeina sjómannastéttinni og gæta réttar hennar, skuli ekki hafa meiri þekkingu á sjávarútvegi en þetta. Eg vildi að satt væri, að Austfirðingar veiddi eins mikla síld og háttv. þm. (M. Ól.) segir, en því miður er því ekki svo farið. Þessi tvö ár, sem eg hefi verið fyrir austan, hefir mönnum þótt gott ef þeir hafa veitt nægilega síld til beitu, og svo hefir það verið síðastliðin 25 ár, að einu ári undanteknu, eina og eg gat um áðan. Vil eg leyfa mér að vitna til þeirra háttv. þm. sem kunnugir eru á Austfjörðum, hvort eg fer ekki með rétt mál.

Þessi tvö atriði, sem eg gat um áðan, að ákvæðið í núgildandi lögum um útsvaraskyldu síldveiðimanna, væri óskýrt og hefði orkað tvímælis, og að óréttlátt væri að leggja þyngri kvaðir á þá menn er síldveiði stunda, heldur en á þá sem stunda annan útveg, hefir háttv. frsm. (M. Ól.) ekki getað skilið enn þá. Eg sé ekki, að það sé til nokkurs hlutar að vera að endurtaka það, sem eg sagði áðan um þetta, því að mér mun naumast takast að koma háttv. framsögum. (M. Ól.) í skilning um það, hér eftir. Hins vegar vænti eg þess, að aðrir hv. deildarmenn hafi skilið hvert breyt.till, mín stefnir og að þeir greiði henni atkvæði.