06.08.1914
Neðri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

15. mál, sveitarstjórnarlög

Framsögum. meiri hl. (Matth. Ólafsson) :

Eg verð að segja það, að eg skildi lítið í lestri háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), en það skildi eg þó, að hann var reiður, og það við mig.

Eg er viss um það, að enginn í þessari háttv. deild trúir því, sem hann sagði, að hann hefði meira vit á sjávarútvegsmálum en eg, og er viss um, að hann er ekki svo heimskur sjálfur, að hann haldi það í alvöru. Það mætti líka vera meira en lítill munur á vitsmunum okkar, ef hann væri betur að sér í því, sem lýtur að sjávarútvegi en eg, því að eg hefi frá blautu barnsbeini fengist við sjómensku og það sem að henni lýtur, en hann hefir aldrei, svo eg viti, fengist við neitt þess konar.

Hann vill gera þá breytingu á frv. að síldveiði með nót verði látin heyra undir ákvæði 2. gr., að því er til útsvarsskyldu kemur. Eg verð að halda því fram, að þetta sé ekki rétt, því að síldveiði er oft afararðsöm atvinna, og altaf miklu arðsamari heldur en bátfiski. Á einni nóttu má taka mörg þús. tunnur af síld, ef vel gengur. Eg vissi t. d. að fyrir vestan náðust einu sinni 11 þús. kr. virði af síld á einni nóttu. Það er því sanngjarnt að taka þennan atvinnuveg undan, þegar um það er að ræða, hve mikið skuli goldið til sveitar af hverjum atvinnuveg.

Það er að vísu rétt, sem háttv. þm. sagði, að bátur er notaður við síldveiði, en eg hélt að hann skildi það, að bátfiski er alt annað og gefur minna í aðra hönd. Eg skil ekki í því, að háttv. þm. vilji endilega halda þessu til streitu, því að það má hann vita, að fengi hann breytingartillögu sína á þskj. 358 samþykta, þá mundi alt frv. falla.

Háttv. þm. Ak. (M. Kr.) sagði, að með frumv. væri verið að leggja síldarútvegsmennina í einelti. Ef þetta er að leggja í einelti, þá getur flest verið það. Ef Síldarútvegsmennirnir hafa meiri ágóða af sinni atvinnu en aðrir, þá eiga þeir líka að borga meira en aðrir. Ef þeir eru svo miklir atorkumenn, að þeir geti rekið atvinnu sína á 10–12 stöðum á einu ári, þá eiga þeir líka að borga meira en aðrir. Það er blessun fyrir hvert land að eiga sem flesta atorkumenn, því að það eru þeir, sem fjárhagalega halda landinu uppi. En það verður lítil blessun að atorkumönnunum, ef þeir borga ekki meira en aðrir í landssjóðinn.