31.07.1914
Neðri deild: 29. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

51. mál, vegir

Flutningsm. (Björn Kristjánsson) :

Frv. þetta var borið hér fram á síðasta þingi og farið fram á, að landssjóður tæki þennan veg að sér að öllu leyti. Samskonar frv. og í sama formi hefir svo verið borið fram í háttv. Ed. á þessu þingi. Deildin gat þó ekki fallist á, að landasjóður héldi veginum við að öllu, heldur varð það að samkomulagi, að vegurinn skyldi talinn sem almenn flutningabraut og landssjóður kostaði viðhaldið að einum þriðja. Sú stefna fekk svo mikið fylgi í deildinni, að eg held, að ekkert atkvæði hafi verið þar á móti. Hingað til hafa sýslurnar tvær, Gullbr.- og Kjósarsýsla, haft allan veg og vanda af þessum vegi og seinast á þessu ári hafa þær kostað til hans önnur 200 kr. og hin 500 kr. og hrökk það þó hvergi nærri til. Svo ákvað sýslunefnd Kjósarsýslu að hætta að telja þetta sýsluveg, því að hann liggur í útjaðri Kjósarsýslu og kemur íbúum hennar að litlum notum. Það er aðeins einn hreppur í sýslunni, Álftaneshreppur, er notar þenna veg, og er það því eðlilegt,. að sú sýslan vilji ekki telja hann sýsluveg framvegis og treysti sér ekki til að kosta viðhald hans.

Það má líka sannarlega kalla, að þessi vegur sé »almenningur«, sérstaklega síðan bifreiðarnar komu hingað. Það var auglýst í vor, að það væri farnar 25 ferðir á dag milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur á bifreiðum einum, fyrir utan alla aðra vagna, sem um veginn fara. Á þessari leið er líka Heilsuhælið, sem má telja almenningseign og hefir mikla flutninga um veginn. Að vísu getur þetta talist sýsluvegur fyrir Gullbringusýslu, en það yrði henni einni of þungur baggi að bera, að sjá um viðhald hana, í viðbót við allan annan kostnað, sem hún hefir bakað sér með vegalögunum. Þegar vegalögin vóru samin, var þessi sýsla svo óheppin, að enginn af vegum hennar var talinn flutningabraut, og þess vegna hefir hún orðið að kosta meira til vega sinna heldur en nokkur önnur sýsla á landinu og skuldar nú 48558 kr. Hún varð útundan með að fá nokkra flutningabraut, samkvæmt vegalögunum, en eins og kunnugt er, hefir þingið hlaupið undir bagga og borgað helming kostnaðarins við Keflavíkurveginn, og minnist eg þess þakksamlega. En þess utan hefir nú sýslan lofað 10 þús. kr. til vegar til Grindavíkur og verður það þannig um 60 þús. kr., sem sýslan skuldar vegna vega sinna.

Auðvitað þarf nú að byggja Hafnarfjarðarveginn af nýju, gera hann »púkk«lagðan og nota til þess hraunið, sem vegurinn liggur í gegn um, og myndi Gullbringusýsla og Kjósarsýsla ekki telja eftir sér að leggja fram 2/3 hluta viðhaldskostnaðarins eina og frv. áskilur. Ef ekki er undinn bráður bugur að því að gera við veginn, geta af því hlotist slys.

Vona eg nú, að þetta frumv. fái eins góðar undirtektir hér í deildinni eins og í háttv. Ed. Hér er bréf á þskj. 205 frá sýslumanninum í Hafnarfirði, og skýrir það þetta nánar, en af því að það er venja mín að tala sem styzt og gera aðeins sem ljósasta grein fyrir skoðun minni, þá fer eg ekki lengra út í það, enda er fundurinn orðinn nokkuð langur.

Eg sé ekki ástæðu til að nefnd verði sett í málið; það er ofur einfalt og allir þekkja vegarspottann héðan til Hafnarfjarðar.