03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

51. mál, vegir

Flutningsm. (Björn Kristjánsson) :

Mér heyrðist það á 1. þm. Rangv. (E. J.), að hann mundi vera með þessu frumv., ef hin vegafrumv. hefði verið samþykt. En þess ber að gæta, að þetta mál er alls annars eðlis. Hér er um það eitt að tala, að taka veg í tölu flutningabrauta, en þar var að ræða um afnám viðhaldsskyldu þeirrar, er hvílir á sýslunum.

Það hefir verið venja, að leggja flutningabrautir þar, sem umferðin er mest, og enginn getur neitað því, að ekki er meiri umferð um nokkurn veg á Íslandi, en einmitt þennan. Það mælir því öll sanngirni með því, að þetta frumv. verði samþykt. Og hér er líka hætta á ferðum, ef veginum er ekki haldið í sæmilegu lagi, einkum eftir að farið er að nota svo mikið bifreiðar á þessum kafla sem nú er. Sýslurnar neita að leggja meira fé til hans, og landinu ber skylda til að taka hann að sér ef hann á ekki að eyðileggjast.