08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Jóhann Eyjólfsson:

Það eru vissar ástæður til þess, að eg stend upp. Eg heyrði nefnilega á nokkrum mönnum eftir að þetta mál var hér til fyrstu umræðu, að þeir vóru hissa á því, að eg sem væri bóndi, skyldi geta verið með þessu frumvarpi. Eg lít nú svo á, að menn af Bændaflokknum þurfi ekki og eigi ekki að hafa neina sérstöðu í slíkum málum. Eg álít, að bæði þeir og reyndar allir þingmenn eigi að hafa það hugfast, að stofna engin óþörf embætti á landssjóðs kostnað. Ef þau miða til þess að efla hagsmuni landsins, þá er um annað að tala, og eins er það, ef um sóma og virðingu þjóðarinnar er að ræða, eins og eg álít að eigi sér stað hér í þessu tilfelli, og ef svo er, þá megum vér ekki láta skammsýni eða smásálarskap ráða gerðum vorum. Eg get nú búist við því, að eg verði spurður, á hvern hátt þetta eigi að miða til þess að halda við eða auka virðingu og sóma þjóðarinnar, að stofna þennan kennarastól. Því vil eg svara með annari spurningu: Hvað hefir hingað til haldið uppi virðingu íslenzku þjóðarinnar? Fyrir hvað eru Íslendingar frægir? Ekki er það fyrir stjórnmál, þau eru ekki í því fyrirmyndar ástandi hér, að útlendar þjóðir sæki hingað þekkingu á þeim. Ekki heldur fyrir fjármál. Þegar horft er eftir miljónum eða auðmæringum, þá er ekki litið til Íslands. Og þrátt fyrir þetta eru Íslendingar þó frægir. Þótt vér séum fáir og fátækir, þá erum vér þó frægir fyrir það, að hafa staðið framarlega meðal þjóðanna í því, að efla sögulega þekkingu og miðla henni í arf til niðja vorrar þjóðar og annara, sem sagt, íslenzka þjóðin er fræg fyrir að hafa staðið framarlega. í bókmentalegu tilliti. Og þetta, að stofna þennan kennarastól, er eitt af því, sem vér þurfum til þess að geta haldið áfram að standa eftir sem áður jafnfætis öðrum þjóðum að fróðleik og bókmentaiðkunum. Því að geta lesið þessar gömlu bækur er lykill að svo miklum fróðleik, sem ekki mun hægt að fá annarstaðar og sem vér megum ekki glata, ef vér viljum halda áfram með að halda uppi frægð vorri sem sögu- og bókmenta þjóð. Þegar þjóðin hefir einu sinni komist á þá viðurkenningar-tröppu, sem hún er komin á, þá megum vér ekki láta hrinda henni þaðan aftur.

Vér verðum að hafa það hugfast, að kippa ekki einu laufi úr þeim virðingarsveig, sem þjóðin hefir unnið sér á þessu sviði.