10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Björn Hallsson :

Ástæðan til þess, að eg tók ekki til máls við 2. umr., var sú; að eg vildi afla mér frekari upplýsinga um þetta mál, en þá lágu fyrir. Og skal eg nú leyfa mér að skýra frá þeim upplýsingum, sem eg hefi fengið og afstöðu mína til málsins, þótt eg sýndi hana við síðustu atkvæðagreiðslu, með því hvernig eg greiddi atkvæði.

Mig furðaði á því, eins og háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), hvað þetta mál fékk góðar undirtektir hér í deildinni, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, að á flestum þingmálafundum út um land er mælt á móti því að fjölga embættum og embættismönnum, og að þjóðin í heild sinni er mótfallin fjölgun þeirra. Það er að vísu satt, að þessi þjóðarvilji er brotinn þing eftir þing. Vér höfum nú þegar afgreitt frá þessari hv. deild eitt embættið, þar sem var eftirlitsstaðan með sparisjóðunum, og nú kemur þetta frumv. frá háttv. Ed. Mér finst þetta ekki í samræmi við óskir þjóðarinnar og svona má þetta ekki lengur ganga. Ekki er það heldur í samræmi við sparnaðarhugmyndina, sem margir sem með þessu frumvarpi mæla, telja sér svo kæra. Mér þykir undarlegt þegar menn breytast svona á þingi, þegar menn eru sparnaðarmenn út um land, en bregðast þegar á hólminn kemur, á þingbekkjunum.

Eg álít, að embætti þetta sé gersamlega óþarft. Allir muna eftir því þjarki, sem varð um það, hvort afnema bæri latínu og grískukenslu úr mentaskólanum. Eg man vel eftir óánægju þeirri, sem orðin var með það fyrirkomulag sem þá var, og sem leiddi til þess, að latínukenslan var takmörkuð, en grískukenslan afnumin. Síðan hefi eg ekki orðið var við neina óánægju með kenslufyrirkomulagið, nema hjá guðfræðingunum. Þeir telja, að það sé nauðsynlegt að læra grísku til þess að geta lesið Nýja-Testamentið á, frummálinu. En samt er eg ekki sannfærður um, að nauðsynlegt sé að stofna þetta embætti við Háskólann, því að það munu ekki verða mjög margir menn á ári, sem leggja stund á guðfræði. Aðsóknin mundi að minsta kosti verða mjög lítil, svo að líklega yrði kennarinn að tala þessi dauðu mál fyrir tómum bekkjum að mestu leyti.

Eg get miklu fremur fallist á þá tillögu, að taka grískukensluna upp aftur í latínuskólunum með tímakenslu. Það ætti ekki að vera verulega kostnaðarsamt, ekki meira en svo sem 300–400 kr. á ári. Í það álít eg að ekki væri horfandi, ef það gæti orðið til þess að friða menn og gera guðfræðingana ánægða. Eg álít líka að heppilegra sé að kenna grískuna í Mentaskólanum heldur en í Háskólanum. Það þarf ekki að kenna hana í öllum bekkjunum, heldur aðeins í einum eða tveimur þeim efstu.

Eg hefi átt tal við marga menn, sem lagt hafa stund á klassisk fræði, og hafa þeir látið í ljós við mig, að þeir hafi lítið gagn haft af þeim í lífinu, það er a. s. þegar þeir hafa farið í embætti út um land. Hitt er auðvitað, að þau koma vísindamönnunum að gagni. Það er eins um klassísku málin og önnur mál, að þegar menn hætta að iðka þau, þá stirðna menn í þeim og gleyma þeim.

Eg gat um það áðan, að eg hefði aflað mér upplýsinga um þetta mál. Eg fór til prófessoranna Björns M. Ólsen og síra Haraldar Níelssonar, af því að eg áleit, að þeir hefði mesta þekkingu og reynslu í þessum efnum, og að í engan stað væri hægt að fara þar sem hægt væri að fá betri eða áreiðanlegri upplýsingar. Skal eg nú, með leyfi forseta, lesa upp bréf, sem próf. B. M. Ólsen hefir skrifað mér út af fyrirspurnum, sem eg lagði fyrir hann:

»Reykjavík, 9. ágúst 1914.

Herra alþm. Björn Hallsson!

Þér hafið lagt fyrir mig eftirfarandi spurningar:

1. Teljið þér það nauðsynlega ráðstöfun að stofna nú þegar á þessu aukaþingi kennaraembætti við háskólann í klassískum fræðum ?

2. Væri ekki nægilegt, að gefinn væri kostur á slíkri kenslu við hinn almenna mentaskóla, þeim sem þess óskuðu ?

Svar mitt verður á þessa leið:

Við 1. spurningu :

Í sjálfu sér álít eg það æskilegt, að vísindaleg kensla í klassískum fræðum sé sett á stofn við Háskóla Íslanda. Hann ber ekki nafn með rentu, fyrr en hann er svo úr garði gjörður að kenslukröftum, að hann veitti tilsögn í sem flestum, helzt öllum greinum mannlegrar þekkingar. Og klassísk fræði eru óneitanlega mjög merkilegur þáttur í vísindum nútímans. Hina vegar verður að líta á það, að vér Íslendingar eigum ekki nú sem stendur völ á neinum hæfum innlendum manni í slíka stöðu. Ef vér því nú viljum setja á stofn kenslustól í klassískum fræðum við háskólann, álít eg nauðsynlegt að gjöra hann svo úr garði, að í stöðuna fáist hæfur maður útlendur. Að setja á stofn dósentsembætti í þessari grein, með tiltölulega lágum launum, virðist mér vera alveg tilgangslaust. Því að um það mundi enginn hæfur maður sækja, og óhæfur maður í slíkri stöðu myndi ekki verða nein prýði fyrir Háskólann. Sé mönnum alvara að koma á fót vísindalegri kenslu í klassískum fræðum við Háskólann, sem eg tel æskilegt, þá er að minni hyggju nauðsynlegt að stofna í því skyni prófessorsembætti með háum byrjunarlaunum, varla lægri en 4 þús. kr. Sjái menn sér það ekki fært, álít eg hyggilegra að fresta máli þessu að sinni, enda efast eg um, að vísindaleg kensla í klassískum fræðum myndi nú sem

stendur draga að sér marga nemendur.

Við 2. spurningu:

Nú, þegar grískukensla er afnumin við Mentaskólann, er það lífsnauðsyn fyrir guðfræðisdeildina, að nemendur hennar eigi kost á kenslu í undirstöðuatriðum grískrar tungu, til þess að þeir geti lesið Nýja testamentið á frummálinu, en slík kensla í undirstöðuatriðum á að minni hyggju miklu fremur heima við Mentaskólann en við háskólann. Ef sett væri á stofn kjörfrjáls (fakultativ) kensla í þessum undirstöðuatriðum við Mentaskólann, fyrir einn eða tvo hina efstu bekki hans, og guðfræðisnemendum Háskólans leyft að taka þátt í henni, þá væri, að minsta kosti í bráðina, bætt úr hinni brýnustu þörf guðfr.-deildarinnar, enda hefir annar af prófessorum guðfræðisdeildarinnar látið það í ljós í áheyrn minni, að þetta mætti nægja í svipinn.

Virðingarfylst.

Björn M. Olsens.«

Þetta var hans svar, og eg álít ekki þýðingarlaust, hvernig hann lítur á þetta mál.

Eins og eg gat um, talaði eg við prófessorinn í guðfræði, Harald Níelsson, og sagði hann, að sér væri sama, hvort grískan væri kend í Mentaskólanum eða við Háskólann. Aðeins lagði hann áherzluna á það, að guðfræðisnemar ætti kost á grískunámi, annaðhvort við Háskólann eða Mentaskólann, til þess þeir gæti lesið Nýja testamentið á frummálinu, og studdist í því efni við reynslu sína sem guðfræðiskennari og nemandi. Hann áleit það eðlilegra, að hún væri kend við Mentaskólann, þar sem kenslan ætti aðallega að vera byrjunarliður til að komast niður í málinu, en það tefði fyrir guðfræðisnáminu að byrja ekki á grísku fyrr en við Háskólann. Eg þykist nú hafa sýnt, að embætti þetta sé algerlega óþarft, og að bæta megi úr þeim annmörkum, sem hér þykja á, með því að stofna til tímakenslu í grísku við Mentaskólann, sem mönnum er frjálst að taka þátt i. Það mundi reynast stórum ódýrara en að stofna embættið.

Eg vil ekki rýra gildi Háskólana í neinu, síður en svo, það væri gagnstætt hagsmunum þjóðarinnar, en af því að eg álít þetta embætti óþarft tildursembætti, þá getur það ekki að neinu leyti aukið gildi hans. Eg get ekki tekið undir með þeim, sem telja háttv. deild hafa tekið fasta afstöðu í málinu, og að ekki sé til neina að rökræða málið nú. Eg tel engan bundinn við atkvæði, ef nýjar og gagnlegar upplýsingar koma fram, eins og eg verð að álíta, að eg hafi komið með nú.

Vona eg nú, að háttv. þm. átti sig betur á málinu að fengnum þessum upplýsingum, og tel eg heppilegast að afgreiða það með rökstuddri dagakrá, sem eg skal leyfa mér að lesa upp:

Vegna þess, að mikil líkindi eru til, að óþarft sé að stofna nýtt kennaraembætti við Háskóla Íslands í klassískum fræðum, en bæði hentugra og ódýrara að auka þá kensla við hinn almenna mentaskóla fyrir þá, sem þess óska, lítur deildin svo á, að rétt sé að fresta málinu og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.