08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

113. mál, kosningar til Alþingis

Framsögum. minni hlutans (Magnús Kristjánsson):

Háttv. framsögum. meirihl. hefir nú í stuttu máli gert grein fyrir sinni skoðun og þeirra manna, sem honum fylgja, og eg skal lofa því að tefja ekki tímann mjög lengi.

Það kom fram þegar er nefndin tók til starfa, að mikill meiri hluti hennar var á þeirri skoðun, að rétt væri að fella burt 7. gr. frumv., eða með öðrum orðum, að láta núverandi kjördæmaskipun halda sér. Þetta atriði gat eg ekki fallist á, og það hlýtur öllum að vera augljóst, að jafnframt því sem stjórnarskráin gengur í gildi, leiðir af því langt um meira misrétti milli kjósenda í landinu heldur en verið hefir. Ákvæði stjórnarskrárinnar um rýmkun kosningaréttarins hefir í för með sér fjölda nýrra kjósenda, sem kemur mjög ójafnt niður í hinum ýmsu kjördæmum landsins. Sumstaðar koma 1700 kjósendur á einn þingmann, en í öðrum kjördæmum að eins 200. Þetta er svo augljóst dæmi, að engum blöðum er um það að fletta, að þingið geti gengið frá málinu þannig löguðu. Það er undarlegt, að þeir menn, sem halda fram jafnrétti til kosninga, skuli á sama tíma og þeir berjast fyrir auknum kosningarétti, ekki geta komið auga á það misrétti, sem í þessu felst. Eg býst við að sú eina ástæða, sem meiri hlutinn hefir aðallega fyrir sig að bera, sé sú, að þessi breyting á kjördæmaskipuninni myndi valda óánægju úti um land. Eg geri nú ekki mikið úr því. Mér finst líklegt, að það mætti breyta kjördæmaskipuninni á þann hátt, að flestir mætti vel við una, þar sem hér á þinginu sitja menn víðsvegar af landinu. Það ætti sannarlega að vera hægt að koma sér svo saman, að þingmenn gæti orðið ánægðir með fyrirkomulagið. En þá má aftur bera því við, að það sé ekki nóg, að þingmenn sé ánægðir, því að kjósendur gæti máske verið óánægðir. Og það er alls ekki óhugsandi, að það kynni að heyrast einhverjar óánægjuraddir, en eg álít að þá mætti athuga, á hve miklum rökum óánægjan væri bygð, og mætti þá kippa því í lag smátt og smátt.

Það er ekki rétt, sem sagt hefir verið, að þetta mál sé ekki nógu undirbúið. Það hefir legið svo að segja fyrir hverju þingi síðan um aldamót. Á þinginu 1903 var að vísu gerð nokkur breyting á kjördæmaskipuninni, þar sem kaupstaðirnir voru gerðir að sérstökum kjördæmum. En jafnframt var því lýst yfir af þinginu, að þetta væri að eins bráðabyrgðafyrirkomulag, sem sjálfsagt væri að taka til athugunar á ný, þegar gagngerð breyting kæmist á.

Á þinginu 1907 var svo uppi hlutfallskosningastefnan, og skal eg ekki fara út í það hér, því að það gæti orðið all-langt mál. En víst er um það, að málið hefir verið vakandi. Það hefir verið leitað álits sveitastjórna og héraðsstjórna í þessu máli; en satt er það, að árangurinn hefir ekki verið stór, því að umsagnirnar hafa gengið hver á móti annari og upphafið hver aðra, og hefir því lítið verið á þeim að byggja. Þess vegna verður þingið nú að taka til sinna ráða og afgreiða málið og ganga frá því eins og það hefir bezt vit á, því að það er alls ekki loku fyrir það skotið, að því mætti kippa í lag smátt og smátt, sem ábótavant þætti í fyrstu.

Eg lofaði því í upphafi að vera stuttorður, og það skal eg efna. Eg skal ekki fara lengra út í málið að þessu sinni, en eg geymi mér rétt til að koma með athugasemdir, ef umræðurnar gefa sérstakt tilefni til þess. Eg skal að eins að endingu láta í ljósi þá skoðun, að eg vænti þess, að margir þingmenn hafi nú komist að þeirri niðurstöðu,að ekkert sé því til fyrirstöðu að afgreiða málið nú á þessu þingi, og það sem næst í því formi, sem það kom frá stjórninni. Þingið myndi ekki baka sér ámæli með því, heldur myndi alment verða litið svo á, að það hefði unnið þarft verk.