10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Skúli Thoroddsen:

Það er einatt mjög mikilsvert að gera sér far um að afla sér sem beztrar þekkingar á hvaða máli sem er, en á hinn bóginn finst mér það þó harla óviðfeldið, að heyra því slegið hér föstu, að Björn Ólsen háskólakennari sé eini maðurinn, er vit hafi á máli því, er hér um ræðir, og það í svo afar ríkum mæli, að sjálfsagt sé, að allir verði alorðalaust að beygja sig fyrir því.

Eg fæ ekki séð, að vér, sem menta- og háskólaveginn höfum gengið, höfum neina ástæðu til þess að byggja meira á hana skoðun en á vorri eigin. Vér vitum það vel, að vér erum honum alveg jafnfærir til að kveða upp dóm um það, hvort vér teljum forntungnanámið hafa haft mentandi áhrif á, oss, og teljum því nauðsynlegt, að aðrir eigi kost á því, að geta og aflað sér samskonar þekkingar.

Til skamms tíma var, sem kunnugt er, litið svo á, bæði hér á landi og annstaðar, að því er »gömlu málin» snertir, sem enginn geti talist mentaður maður, ef hann gæti ekki notað sér fjársjóðina, sem fólgnir eru í ritum, sem á téðum forntungum eru skráð. Engu að síður hefir þeim þó nýskeð verið útrýmt grísku að öllu og latínunni að mestu úr »almenna mentaskólanum«, en þó að rétt hafi verið talið, að nýju málin væri látin sitja þar í fyrirrúmi, þá leiðir ekki þar af, að vel fari á því, að kenna ekki fornmálin við háskólann.

Eg er hræddur um, að aldrei verði litið nema smáum augum á háskóla vorn, meðan vér höfum þar ekki kennarastól í þessum fræðigreinum. En fyrst vér á annað borð höfum stofnað íslenzkan háskóla, þá verðum vér og að taka afleiðingarnar, þ. e. gera hann svo úr garði, að við hann sé kent það, sem nauðsynlegast þykir að kent sé við alla aðra háskóla — jafnvel þótt vér getum ekki þegar gert hann að öllu öðru leyti eins vel úr garði, eina og oss auðugri þjóðirnar.

Mér finst og að því er frumv. þetta snertir, — frumv., er samþykt hefir verið í Ed. og hér við 2 umræður að það stappi fífldirfsku næst, að láta sér detta í hug, að deildin fari nú að fella það, beint ofan í fyrri atkvæðagreiðslurnar um málið.

Út af orðum háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), er í þá átt fóru, að hér »lægi ekkert á«, þá eru það orð, sem heyrast ekki sjaldan hjá honum þegar um eitthvað það ræðir, sem ekki er í ask Flóamanna ætlað. Ef hann setti sig í spor þeirra manna, sem sárt finna til þess, að geta ekki átt kost þeirrar fræðslu, sem hér um ræðir, þá mundi hann þó að líkindum líta nokkuð öðru vísi á málið.